Samtök launafólks vilja samtal við #metoo konur

Mikilvægt er að fá sjónarmið sem flestra til að viðbrögðin við #metoo byltingunni verði sem best.

BSRB og önnur heildarsamtök launafólks ásamt Kvenréttindafélagi Íslands bjóða #metoo konum til samtals um næstu skref laugardaginn 10. febrúar. Á fundinum er ætlunin að móta tillögur að næstu skrefum og aðgerðum stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks vegna #metoo byltingarinnar.

Fundurinn verður með þjóðfundarsniði og eru allar konur sem tekið hafa þátt í einhverjum af hinum fjölmörgu #metoo hópum hvattar til að mæta og segja sína skoðun. Fundurinn verður lokaður fjölmiðlum, en konum sem starfa á fjölmiðlum er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt.

BSRB hvetur konur til að skrá sig til leiks og taka þátt í að móta viðbrögð og aðgerðir stéttarfélaga og bandalaga þeirra. Slíkar aðgerðir geta bæði náð til innra starfs þeirra en einnig samskipti við atvinnurekendur og stjórnvöld.

Allar konur eru velkomnar, á meðan húsrúm leyfir. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirfram. Þá er nauðsynlegt að láta vita ef þátttakandi hefur þörf fyrir túlkun eða táknmálstúlkun á fundinum.

Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði fundarins. Athugið að ekki er nægjanlegt að skrá sig til þátttöku á viðburðinum, nauðsynlegt er að fylgja leiðbeiningum og skrá sig með tölvupósti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?