Senda þarf körlum og strákum skýr skilaboð

Árlegur fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í höfuðstöðvum SÞ í New York.

Ekkert land í heiminum hefur náð jafnrétti þegar kemur að heimilisstörfum og ólaunuðum umönnunarstörfum. Senda verður körlum og strákum skýr skilaboð um að þeir eigi að axla ábyrgð á þessum störfum til jafns við konur.

Þetta var meðal þess sem fram kom á viðburði sem Ísland og hin Norðurlöndin stóðu fyrir á árlegum fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þessa dagana. Fulltrúi BSRB situr fundinn fyrir hönd bandalagsins ásamt fulltrúa frá SFR.

Það var sameiginlegt mat þátttakenda á fundinum að mikilvægt væri að stjórnvöld taki forystuna í þessum málaflokki með stefnumótun og fjárfestingu í innviðum á borð við launað foreldraorlof og dagvistun á viðráðanlegu verði.

Valdefling kvenna megin viðfangsefnið

Gestir þessa árlega fundar Kvennanefndarinnar koma frá öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þar eru þingmenn og ráðherrar, en auk þeirra sitja fundinn fulltrúar fjölmargra frjálsra félagasamtaka. Á fundinum eru rúmlega 150 fulltrúar 44 stéttarfélaga alls staðar að úr heiminum.

Meginþema fundarins er efnahagsleg valdefling kvenna í breytilegum heimi vinnumarkaðar. Á dagskránni þær tvær vikur sem fundurinn stendur eru bæði formlegir og óformlegir fundir, pallborðsumræður og viðburðir. Þar er meðal annars rætt um launajafnrétti, fjárhagslegt sjálfstæði kvenna, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðgengi að tækni, menntun og síðast en ekki síst um kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni.

Sýndu heimildarmynd um Kvennafríið 1975

Ísland tók þátt í undirbúningi sem skipulagður var af UN Women, Sviss og Íslandi þar sem hinu svokallaða „Equal Pay Championship“-frumkvæði var hleypt af stokkunum. Hlutverk Íslands í verkefninu er að vera fyrirmynd annarra þjóða í baráttunni fyrir jöfnum launum. Þá var einnig hleypt af stokkunum herferð UN Women, #StopTheRobbery, en markmið herferðarinnar er að vekja athygli á launamun kynjanna og því að á heimsvísu er verið að „ræna“ konur um 23% af launum þeirra. Hér má sjá myndband þar sem fjallað er um átakið.

Að kvöldi fyrsta dags ráðstefnunnar var boðið upp á viðburð þar sem ríki sem þykja standa sig vel í jafnréttismálum, svo sem Sviss, Suður Afríka og Ísland, komu fram. Þar var meðal annars sýnd stutt mynd um Kvennafríið 1975.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?