SfK samþykkir allsherjarverkfall

Starfsmannafélag Kópavogsbæjar (SfK) hefur samþykkt verkfallsboðun í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna sinna. Allsherjarverkfall SfK mun því skella á þann 10. nóvember hafi samningar félagsins og Samninganefndar íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar ekki tekist fyrir þann tíma.

Alls voru 762 á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni og þar af tóku 538 þátt sem gerir kjörsókn upp á 70,6%. Þar af samþykktu 504 verkfallsboðun eða 94%. Nei sögðu 32 eða tæp 6%. Auðir seðlar voru tveir.

Í sumar framlengdu öll bæjarstarfsmannafélög innan BSRB kjarasamninga sína nema SfK. Við upphaf kjarasamningsviðræðna þessa árs lá ljóst fyrir að ekki yrði samið um heildarendurskoðun kjarasamninga. Þannig yrði kjarasamningum framlengt með breytingum sem væru sambærilegar í öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og samningur farmlengdur til eins árs.

Við undirritun kjarasamnings í júlí sl. hjá SfK var þeim aftur á móti tilkynnt að fella ætti út yfirlýsingu í kjarasamningi þeirra. Yfirlýsingin er þýðingarmikil að því leyti að afnám hennar vegur að félagafrelsi nokkurra félagsmanna SfK. Við svo búið gat starfsmannafélagið ekki skrifað undir framlengingu kjarasamningsins.

Stjórn BSRB sendi nýverið frá sér ályktun þar sem skorað var á Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar að ganga frá framlengingu kjarasamninga við SfK með sama hætti og gert var hjá öðrum aðildarfélögum BSRB. Nú er ljóst að gangi það ekki eftir fyrir 10. nóvember mun koma til allsherjarverkfalls SfK sem mun hafa veruleg áhrif á hinar ýmsu stofnanir Kópavogsbæjar.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?