SFR, SLFÍ og LL með sameiginlega kröfugerð

Þrjú stærstu félögin innan BSRB sem semja við ríkið hafa tekið höndum saman og leggja fram sameiginlega kröfugerð í komandi kjarasamningsviðræðum.

Þetta eru SFR stéttarfélag í almannaþjónustu sem semur fyrir um 3500 starfsmenn, Landssamband lögreglumanna með rúmlega 600 starfsmenn og Sjúkraliðafélag Íslands með um 1100 starfsmenn hjá ríkinu.

Núverandi aðstæður á vinnumarkaði kalla á sterka viðspyrnu gagnvart viðsemjendum og telja forsvarsmenn félaganna að sá styrkur sem af samstarfinu fæst muni nýtast vel í viðræðunum framundan. Eins og staðan er í dag er líklegra en ekki að til aðgerða þurfi að grípa til að ná fram kröfum félaganna. Enda hafa fulltrúar ríkisins hvorki talað fyrir miklum hækkunum né leiðréttingum á launum ríkisstarfsmanna undanfarna mánuði.

Síðar í dag munu fulltrúar úr saminganefndum félaganna þriggja hitta samninganefnd ríkisins hjá sáttasemjara og leggja fram hugmynd að viðræðuáætlun.

Kröfugerð SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna verður kynnt á sameiginlegum blaðamannafundi í næstu viku.





Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?