Sinnuleysi vegna aðgengis að hreinu vatni

Aðgangur að hreinu vatni eru grundvallarmannréttindi.

Í dag og síðustu föstudaga hafa ungmenni á Íslandi og víðar gengið út úr skólunum og mótmælt sinnuleysi stjórnvalda víða um heim þegar kemur að umhverfismálum. Sinnuleysið er líka alls ráðandi víða þegar kemur að aðgengi að hreinu vatni.

Hluti af þeirri umhverfisvá sem heimurinn stendur frammi fyrir er sífellt verra aðgengi almennings víða um heim að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Á það er bent í frétt á vef PSI, alþjóðlegra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, í tilefni af því að í dag er alþjóðlegi vatnsdagurinn.

Nærri 9 af hverjum 10 náttúruhamförum í heiminum tengjast vatni á einhvern átt, og með hlýnun jarðar mun hlutfallið hækka. PSI, eins og BSRB, hefur barist fyrir því að eignarhald á vatni sé í höndum almennings og lagst gegn því að eignarhaldið sé fært einkaaðilum.

PSI mótmælir áformum Sameinuðu þjóðanna um að láta einkaaðilum eftir að fjármagna aðgengi almennings að hreinu vatni, enda hafi einkaaðilar ávallt þau markmið að hámarka gróða fjármagnseigenda og því enga hagsmuni af því að þjónusta þá verst settu.

Lestu meira um áherslur PSI hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?