Sjálfbær vinnsla náttúruauðlinda

Eftirspurn auðlinda úr jörðu fer vaxandi á Norðurlöndum eftir því sem velmegun eykst víða um heim. Því telur Norðurlandaráð þörf á að dýpka norrænt samstarf um náttúruauðlindir. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda verður í brennidepli á þemaþingi ráðsins á Akureyri þann 8. apríl eins og fram kemur í frétt á vefnum www.norden.org.

 „Við höfum lengi hagnýtt skóga, vatn og jarðveg, og þessar auðlindir munu verða mikilvægar áfram. Við erum langt komin með að leysa umhverfisvandamál sem upp hafa komið í þessu sambandi, þó starfinu sé vissulega ekki lokið. Aukin eftirspurn snertir fyrst og fremst olíu, gas og steintegundir. Vinnsla þessara efna getur skapað atvinnu og tekjur, en einnig valdið ágreiningi og hagsmunaárekstrum af áður óþekktum toga. Ýmsar spurningar vakna varðandi samfélagsgerð, samgöngur og nýja nálgun á umhverfi okkar í heild. Því er mikilvægt að Norðurlandaráð setji fram uppbyggilegar lausnir til að lágmarka ágreining,“ segir Karin Åström, forseti Norðurlandaráðs.

Þemaþing Norðurlandaráðs verður sett 8. apríl kl. 13. Meðal þeirra sem taka þátt í umræðum verða Eygló Harðardóttir, ráðherra norræns samstarfs, Sigurður Ingi Jónasson, ráðherra sjávarútvegs-, landbúnaðar-, umhverfis- og auðlindamála, auk Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ein tillaga sem tekin verður ákvörðun um á þinginu varðar þróun viðmiða um sjálfbæra námuvinnslu á Norðurlöndum. Tillagan kemur frá flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði, sem vill gjarnan sjá viðmiðin staðfest í yfirlýsingu um ábyrga námuvinnslu.

Deilur um makríl- og síldveiðar í Norður-Atlantshafi verða teknar fyrir í tengslum við þemaumræðurnar. Einnig er fjallað um auðlindir sjávar í tillögu efnahags- og viðskiptanefndar um fiskeldi í hringrásarkerfum. Efnahags- og viðskiptanefnd vill beina tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að þær beiti sér í sameiningu fyrir því að þróun fiskeldis í hringrásarkerfum hljóti stuðning og forgangsmeðferð innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB. Nefndin telur ennfremur að með tilliti til viðkvæms ástands Eystrasaltsins gætu þau Norðurlönd sem liggja að Eystrasalti verið hentugt tilraunasvæði.

Meðal annarra liða á dagskrá þemaþingsins er tillaga um norrænt snjalldreifikerfi fyrir raforku.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?