Sjúkraliðanemar kepptu á Íslandsmóti í hjúkrun

Hér eru þær Bergrós Vala Marteinsdóttir og Amelía Ósk Hjálmarsdóttir ásamt kennara sínum og þjálfara, Maríu Albínu Tryggvadóttur, sem einnig er sviðstjóri sjúkraliðabrautar VMA.

Þær Bergrós Vala Marteinsdóttir og Amelía Ósk Hjálmarsdóttir, sjúkraliðanemar frá Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA) urðu hlutskarpastar þegar keppt var í hjúkrun á Íslandsmóti iðn- og verkgreina árið 2017 nýverið.

Ísandsmótið er haldið annað hvert ár og er markmiðið að vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðn- og verkgreinum.

Sjúkraliðanemar tóku nú þátt í þriðja skipti og kepptu sín á milli í hjúkrun. Þrjú lið sjúkraliðanema tóku þátt í keppninni. Þau komu frá Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA), Fjölbraut Breiðholti (FB) og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Verkefnið sem sjúkraliðanemarnir tókust á við snérist um hjúkrun 68 ára sjúklings eftir gerviliðaskipti á vinstri mjöðm. Nemarnir áttu að veita sjúklingnum morgunaðhlynningu og þurftu að hafa í huga sögu hennar frá því fyrir aðgerðina og líðan eftir að hún var afstaðin. Til að flækja málið leið sjúklingnum ekki nægilega vel og var bæði ruglaður og æstur.

Niðurstaðan varð sú að lið VMA endaði í fyrsta sæti, lið FB í öðru og lið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í því þriðja.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?