Skattabreytingar á haustþingi

Á haustþingi voru lögð fram fjölmörg frumvörp sem sneru að skattamálum og urðu flest þeirra að lögum í lok ársins. Á vef fjármálaráðuneytisins er farið yfir helstu efnisbreytingar sem í þeim fólust.

Ýmsar breytingar voru samþykktar á tekjuskattlagningu einstaklinga. Skatthlutfall ríkisins í skattþrepi 2 var lækkað um 0,5 prósentustig, eða úr 25,8% í 25,3% auk þess sem neðri tekjuviðmiðunarmörk þrepsins voru hækkuð sérstaklega í 290 þús.kr. á mánuði.  Þá lækkaði hlutfall ríkisins í skattþrepi 1 um  0,04 prósentustig  um leið og hámarksútsvar sveitarfélaga hækkaði um  0,04 prósentustig.  Aftur á móti hækkar meðalútsvar í staðgreiðslu einungis um 0,02 prósentustig sem þýðir að svigrúm sveitarfélaga til hækkunar var ekki nýtt að fullu. Í eftirfarandi töflu koma fram helstu viðmiðunarstærðir tekjuskatts fyrir árið 2014 samanborið við árið 2013.

Af fyrstu 290.000 kr. mánaðartekjum er reiknaður 37,3% tekjuskattur, af næstu 494.619 kr. er reiknaður 39,74% tekjuskattur og af fjárhæð umfram 784.619 kr. er reiknaður 46,24% tekjuskattur. Persónuafsláttur hækkar um 2.013 kr. á mánuði eða um 4,2%. Hér fyrir neðan eru dæmi um áhrif þessara breytinga á ráðstöfunartekjur einstaklinga og hjóna. Hjá einstaklingi með 350 þús.kr. tekjuskattsstofn eftir að búið er að draga frá iðgjald í lífeyrissjóð, aukast ráðstöfunartekjur um 3.766 kr. á mánuði eða um 45 þús.kr. á ári. Ráðstöfunartekjur einstaklings með 550 þús.kr. tekjuskattsstofn aukast um 4.726 kr. á mánuði eða 56.716 þús.kr. á ári.

Ráðstöfunartekjur hjóna, þar sem tekjuhærri aðilinn er með 450 þús.kr. í tekjuskattsstofn og tekjulægri aðilinn er með 350 þús.kr. í tekjuskattsstofn aukast um 8.013 kr. á mánuði eða 96.151 kr. á ári og hjá hjónum, þar sem tekjuhærri aðilinn er með 750 þús.kr. í tekjuskattsstofn og tekjulægri aðilinn með 350 þús.kr. í tekjuskattsstofn, aukast ráðstöfunartekjur þeirra um 116.071 kr. á ári.

Nánari upplýsingar um tekjuskatt einstaklinga má fá hér á vef fjármálaráðuneytisins.

Nánari upplýsingar um allar skattkerfisbreytingarnar má nálgast hér í Vefriti fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 30. janúar 2014


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?