Skattatillögur ganga ekki nægilega langt

Formannaráð BSRB telur skattatillögur stjórnvalda vonbrigði enda sé ekki gengið nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í þeim.

Formannaráð BSRB telur að tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu, sem kynntar voru í gær, gangi ekki nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins sem samþykkt var í morgun.

Í ályktuninni er það ítrekað sú stefna bandalagsins að fjölga eigi skattþrepum, eins og ráðgert er samkvæmt tillögunum, en harmað hversu litlar lækkanirnar eru fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og hversu seint þær eiga að koma til framkvæmda.

„Tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér að á næstu þremur árum verði skattbyrði einstaklinga lækkuð sem nemur alls 6.760 krónum mánaðarlega. Breytingarnar eiga að koma í þremur áföngum og á sá fyrsti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun árs 2020 þegar skattbyrðin á að lækka um 2.253 krónur. Það veldur vonbrigðum hve lítil lækkunin er og enn meiri vonbrigðum hversu seint hún á að koma til framkvæmda,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins.

Þá er einnig bent á að lækkunin nái ekki eingöngu til þeirra sem lægstar hafi tekjurnar heldur einnig til þeirra tekjuhærri. Formannaráðið ítrekar að bandalagið sé andvígt því að skattar séu lækkaðir á hátekjufólk. Nýta eigi það svigrúm sem stjórnvöld telji til staðar til skattalækkana til að lækka álögur á tekjulægstu hópana í samfélaginu.

Í ályktuninni kallar formannaráðið eftir því að tekið verði upp sérstakt hátekjuþrep í skattkerfinu. „Samfélagið hefur kallað eftir réttlæti í skiptingu tekna og ekki síst í umræðu um ofurlaun. Ein leið til að mæta því ákalli er að innleiða hátekjuþrep í skattkerfið. Samanborið við hin Norðurlöndin er Ísland með færri skattþrep, hærri grunnprósentu og lægri hámarksprósentu. Með því að taka upp hátekjuskatt nýtist skattkerfið betur sem tekjujöfnunartæki,“ segir í ályktuninni.

Ýmsar leiðir til að auka svigrúmið

Þar er það einnig harmað að ekki sé lagt til að dregið verði úr tekjutengingum í barnabótakerfinu og bent á leiðir til að auka svigrúmið til þess. „Bandalagið leggur áherslu á mikilvægi þess að barnabætur, húsnæðisbætur og vaxtabætur eigi að vera almennur stuðningur við fjölskyldur líkt og á öðrum Norðurlöndum en ekki eingöngu fyrir þá tekjulægstu líkt og reyndin hefur verið hér á landi undanfarin ár. Auknum kostnaði við bótakerfið má til að mynda mæta með því að hækka fjármagnstekjuskatt til samræmis við hin Norðurlöndin, með upptöku hátekjuskatts og með því að bregðast við vaxandi misskiptingu tekna og auðsöfnun á hendi fárra með stóreignaskatti,“ segir þar ennfremur.

Lestu ályktun formannaráðs BSRB um skattatillögur stjórnvalda í heild sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?