Skoða þarf kostnað fjölskyldna

Þak verður sett á greiðslur sjúklinga í heilbrigðiskerfinu verði frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar, sem lagt var fram á Alþingi í gær, að lögum. Óvíst er um framhald málsins, eins og annarra óafgreiddra mála ríkisstjórnarinnar, eftir ósk forsætisráðherra til forseta um heimild til að rjúfa þing.

BSRB fagnar áformum um að sett sé þak á kostnað almennings, en hvetur til þess að þakið verði lækkað verulega með því að verja meira fé úr sameiginlegum sjóðum til að greiða fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Hámarksgreiðsla 95 þúsund á ári
Samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra verður til eitt kerfi þar sem gætt verður að því að greiðslur einstaklinga fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins fari ekki upp fyrir ákveðið hámark. Það þýðir að kostnaður fyrir komur á heilsugæslu og sjúkrahús, heimsóknir til sérfræðilækna, rannsóknir, geisla- og myndgreiningar verða settar undir eitt greiðsluþak.

Almennt mun hver einstaklingur á aldrinum 18 til 66 ára ekki greiða hærri upphæð en 33.600 krónur á mánuði, eða 95.200 krónur á tólf mánaða tímabili. Börn, lífeyrisþegar og aldraðir greiða ekki meira en 22.400 krónur á mánuði, eða 63.500 krónur á tólf mánaða tímabili.

Notast verður við svokallað fljótandi kerfi. Það þýðir að staða hvers notanda núllast ekki út við áramót, sem myndi hafa í för með sér hærri greiðslur snemma árs, heldur rúllar staðan alltaf miðað við síðustu 12 mánuði á undan.

Smánarblettur á heilbrigðiskerfinu
Háar greiðslur sem innheimtar hafa verið af þeim sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda hafa verið smánarblettur á kerfinu. Það er fagnaðarefni að mati BSRB að stjórnvöld ætli sér nú að taka á þessu alvarlega vandamáli. Eins og fram kom í nýlegri skýrslu ASÍ er nú svo komið að heimilin standa undir tæplega fimmtungi kostnaðarins við heilbrigðiskerfið með beinum greiðslum.

BSRB harmar þó að ekki sé áformað að veita meira fé til þess að tryggja að greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu séu í algeru lágmarki. Bandalagið telur það affarsælast fyrir íslenskt samfélag að rekstur heilbrigðiskerfisins sé á samfélagslegum grunni og greitt sé fyrir þjónustuna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Skoða þarf kostnað fjölskyldna
Einnig er mikilvægt að skoða kostnað almennings í víðara samhengi og skoða kostnað fjölskyldna af heilbrigðiskerfinu. Það er ekki nægilegt að setja þak á kostnað einstaklinga. Til að gæta að því að kostnaður við þjónustu heilbrigðiskerfisins sé ekki of hár þarf að tryggja að kostnaður einstakra fjölskyldna verði ekki of hár. Bandalagið mun hvetja þingmenn til að hafa þetta í huga þegar þingið fær málið til meðferðar.

Verði frumvarpið samþykkt verða tvennskonar hámörk á kostnað fólks við að fá lækningu meina sinna. Þegar hefur verið sett hámark á kostnað við kaup á lyfjum. Við það mun nú vonandi bætast þak á kostnað við annan kostnað heilbrigðiskerfisins.

Rætt hefur verið að sameina þessi kerfi, en ráðherra telur það ekki ráðlagt á þessari stundu þar sem ekki er til staðar nægilega mikil þekking á því hvernig þak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu muni koma út. BSRB hvetur til þess að í framhaldinu verði lagt í þá vinnu sem til þarf til að sameina þessi tvö kerfi í eitt, til einföldunar fyrir sjúklinga.

Sálfræðiþjónusta og tannlæknar eiga heima undir þaki
Þá er einnig rétt að hvetja til þess að þjónusta sem ekki fellur undir hámarkið verði sett þar undir sem fyrst, með tilheyrandi fjármögnun úr sameiginlegum sjóðum. Er þar ekki síst átt við þjónustu sálfræðinga og tannlækna og ferðalög innanlands fyrir þá sem ekki búa nærri þeim úrræðum sem þeir þurfa að nýta.

Ef þú hefur áhuga á að fá allar nýjustu fréttirnar frá BSRB bendum við á Facebook-síðu BSRB þar sem hægt er að fylgjast með því sem hæst ber hjá okkur.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?