Skorum á kjararáð að endurskoða hækkanir

BSRB mótmælir harðlega þeirri ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands um tugi prósenta og skorar á kjararáð að endurskoða ákvörðun sína.

Launahækkun kjörinna fulltrúa er í engu samræmi við rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Í rammasamkomulaginu er ákvæði um sameiginlega launastefnu til ársloka 2018 sem koma átti í veg fyrir það höfrungahlaup sem einkennt hefur vinnumarkaðinn. Hækkanir kjararáðs fara langt út fyrir þann ramma.

Endurskoða þarf lög um kjararáð til að auka gagnsæi í ákvörðunum ráðsins, að mati BSRB. Skilgreina þarf betur við hvaða stéttir á að miða þegar ráðið ákvarðar laun og tryggja að launaþróun þeirra hópa sem heyra undir ráðið verði ekki leiðandi á launamarkaði.

Stjórnvöld taki ábyrgð

Hækkanirnar ná ekki aðeins til þingmanna og forseta, heldur einnig til sveitarstjórnarmanna, þar sem laun þeirra miðast við þingfararkaup. Það er því fjölmennur hópur fólks sem hefur háar tekjur fyrir sem hækkar í launum vegna ákvörðunar kjararáðs. Með ákvörðuninni er verið að auka enn á ójöfnuð í landinu með því að hækka laun hátekjufólks um sem samsvarar vel rúmlega lágmarkslaunum í landinu. Það er augljóslega óásættanlegt.

Það getur ekki verið verkefni verkalýðshreyfingarinnar einnar að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Þar verða stjórnvöld einnig að taka ábyrgð. Sé einhver alvara með orðum stjórnmálamanna um að viðhalda hér efnahagslegum og félagslegum stöðugleika er ljóst að þessar hækkanir geta ekki staðið. Sé það vilji stjórnvalda að fara af þeirri braut sem hefur verið mörkuð er ljóst að launafólk mun sækja sambærilegar launahækkanir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?