Skráning hafin á námskeið fyrir samningafólk

Námstefnur fyrir samninganefndir verða haldnar í húsnæði Háskólans á Bifröst. [Mynd: Háskólinn á Bifröst]

Ríkissáttasemjari hefur nú opnað fyrir skráningu á námstefnur fyrir fulltrúa í samninganefndum sem haldin verða í maí og september á næsta ári. Alþjóðavinnumálastofnunin mælir með því að slíkar námstefnur séu haldnar og ástæða til að hvetja þá sem sæti eiga í samninganefndum BSRB að skrá sig til leiks.

Námstefnurnar verða haldnar á Bifröst en þar verður tekið á fjölmörgum atriðum sem skipta máli fyrir undirbúning kjarasamningagerðar og ætti fræðslan að henta vel bæði reyndu samningafólki og nýliðum. Hugsunin er líka sú að reyndir samningamenn geti miðlað af sinni reynslu til þeirra sem eru lítt reyndari og því æskilegt að hópurinn sé blandaður hvað þetta varðar. Boðið verður upp á tvær tímasetningar svo sem flestir geti tekið þátt.

Kennarar munu koma frá aðilum á vinnumarkaði hér og erlendis, sem og úr háskólasamfélaginu. Lögð verður áhersla á að fá besta fólkið á hverju sviði til að sjá um kennsluna.

Nánari upplýsingar og skráningareyðublað má nálgast á vef ríkissáttasemjara.

Til stendur að bjóða upp á fræðslu af þessu tagi reglulega í framtíðinni, takist vel til með þær tvær námstefnur sem nú eru fyrirhugaðar Ríkissáttasemjari stendur fyrir námstefnunum og hefur haft samráð við BSRB og önnur heildarsamtök á vinnumarkaði við undirbúning þeirra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?