Skráning hafin í fagnám í umönnun fatlaðra

Markmið fagnáms í umönnun fatlaðra er að auka færni og þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks.

Starfsmennt hefur opnað fyrir skráningu í fagnám í umönnun fatlaðra sem hefst í haust. Námið er kennt í vendikennslu þannig að nemendur hafa aðgang að námsefninu á netinu hvar og hvenær sem er.

Markmið námsins er að auka færni og þekkingu námsmanna á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks til að efla lífsgæði þeirra og virkni. Í náminu er lögð áhersla á sjálfseflingu, lífsgæði og réttindi fatlaðs fólks með því að veita þeim viðeigandi þjónustu, að því er fram kemur í námslýsingu á vef Starfsmenntar.

Námið er ætlað þeim sem starfa eða vilja starfa við umönnun fatlaðra, en í því felst vinna við þjónustu á heimilum eða stofnunum fyrir fatlaða. Það getur einnig hentað þeim sem starfa í þjónustu við aldraða og sjúka og fyrir þá sem vinna með börnum og unglingum í vanda.

Námið spannar alls 324 klukkustundir, um helming með leiðbeinenda og helming í starfsþjálfun. Mögulegt er að meta námið til 16 eininga á framhaldsskólastigi. Námið hefst þann 1. september og er þátttaka nemendum að kostnaðarlausu þar sem Starfsmennt greiðir fyrir sína aðildarfélaga.

Nánari upplýsingar um námið má finna í námskrá fyrir fagnám í umönnun fatlaðra. Skráning fer fram á vef Starfsmenntar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?