Skyldur opinberra starfsmanna í neyðarástandi

Aðeins má beita ákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna til að gegna störfum í þágu almannavarna þegar um almannavarnarhagsmuni er að ræða.

Ákvæði í frumvarpi um breytingar á lögum um almannavarnir sem leggur borgaralega skyldu á opinbera starfsmenn til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu er háð ströngum skilyrðum. Taka þarf tillit til aðstæðna starfsmanna hverju sinni ef beita á ákvæðinu að mati BSRB.

Samkvæmt frumvarpinu, sem liggur fyrir Alþingi, verður opinberum aðilum heimilað að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur til þess að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu.

Frumvarpið er lagt fram í ljósi þeirra aðstæðna sem eru í samfélaginu núna vegna COVID-19 faraldursins. Neyðarástandi almannavarna hefur verið lýst yfir og er slíkt ástand forsenda þess að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, verði beitt. Það kann að vera að ákveðin verkefni verði að hafa forgang í slíku ástandi, og má nefna verkefni sem snúa að þrifum og sóttvörnum. Einnig getur verið um það að ræða að halda mikilvægri almannaþjónustu gangandi, og á það við um löggæslu og öryggisstarf, en einnig heilbrigðis-, velferðarkerfi og menntakerfi.

Dæmi um þær aðstæður sem geta komið upp er að færa þurfi þjónustu af starfsstöð, þannig að til dæmis dagþjónustu fatlaðra eða aldraðra verði sinnt í heimaþjónustu, kennslu á menntastofnunum verði sinnt í fjarkennslu eða gerðar kröfur um að starfsmenn vinni heiman frá sér. Starfsmenn geta einnig þurft að taka að sér önnur störf en venjulega, svo sem að taka að sér aukin hlutverk varðandi þrif og sóttvarnir eða fara úr sérfræðistörfum í þjónustu- eða afgreiðslustörf. Þá kann að vera þörf á því að færa starfsmenn milli starfsstöðva, til dæmis ef mikill fjöldi starfsmanna á einum vinnustað er í sóttkví og leita þarf leiða til að halda almannaþjónustu gangandi. Opinberir aðilar í skilningi frumvarpsins eru ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu.

Neyðarúrræði sem er háð ströngum skilyrðum

Í umsögn BSRB um frumvarpið er ítrekað að hér sé um neyðarúrræði að ræða. Þá var, eftir athugasemdir BSRB á fyrri stigum málsins, bætt við umfjöllun um að litið verði til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður eða annar einstaklingur sem hann ber ábyrgð á, glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða annað sem gæti leitt til þess að breytt starfssvið myndi stefna öryggi eða heilbrigði í hættu. BSRB telur afar mikilvægt að horft sé til þess í öllum tilvikum.

Í umsögn bandalagsins kemur jafnframt fram að bandalagið leggur áherslu á að jafnræði og meðalhóf verði haft að leiðarljósi við beitingu úrræðisins og að gott samráð verði haft við starfsmenn áður en ákvarðanir eru teknar.

Mikilvægt er að hafa í huga að aðeins má nota úrræðið þegar um almannavarnarhagsmuni er að ræða. Þannig má til dæmis ekki setja starfsmenn á starfsstöð sem er með skerta starfsemi út af samkomubanni í viðhaldsvinnu eða annað slíkt eða fela þeim verkefni sem setið hafa á hakanum en eru ekki nauðsynleg til að forða smithættu eða halda uppi almannaþjónustu. Þá er alveg skýrt að laun starfsmanna eiga ekki að skerðast og ef farið er í hærra launað starf eða yfirvinna unnin eiga laun að hækka til samræmis við það.

BSRB hefur tekið saman nokkrar spurningar og svör sem hafa komið upp í tengslum við þetta, sem og annað sem tengist faraldrinum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?