Skýrri afstöðu gegn einkavæðingu fagnað

Mikill þrýstingur hefur verið á aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þó rannsóknir sýni að almenningur vill halda þessari þjónustu hjá hinu opinbera.

BSRB fagnar því að Svandís Svavarsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra, skuli strax á fyrstu dögum sínum í embætti tala skýrt út um að ekki standi til að einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu. Þá er afar jákvætt að ráðherra boði úttekt á umfangi og stöðu einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni.

Undanfarin ár hefur verið mikill þrýstingur frá hagsmunaaðilum að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þessi þrýstingur hefur aukist þrátt fyrir að rannsóknir sýni að þorri almennings er andvígur einkavæðingu og vill halda heilbrigðisþjónustunni hjá hinu opinbera.

Þannig vilja rúmlega 94 prósent landsmanna að ríkið veiti heilbrigðisþjónustu í landinu, samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem gerð var á vegum International Social Survey Programme fyrr á þessu ári.

Aðrar rannsóknir staðfesta andstöðu Íslendinga við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þannig sýna niðurstöður nýlegrar rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, að um 86 prósent landsmanna vilja að sjúkrahús séu fyrst og fremst rekin af hinu opinbera og nærri 79 prósent vilja að heilsugæslustöðvar séu reknar af hinu opinbera.

Þegar tölurnar eru bornar saman við sambærilegar rannsóknir Rúnars frá 2006 og 2015 má sjá að afstaða landsmanna gegn einkavæðingu er að aukast.

Stendur í vegi fyrir einkavæðingu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var skýr í máli í þættinum Víglínunni á Stöð 2 síðastliðinn laugardag. „Það er alveg ljóst að á minni vakt verður ekki farið frekar í einkavæðingarátt, enda er þessi stjórnarsáttmáli, hann snýst fyrst og fremst um það að efla almenna kerfið. Snýst um það að styrkja jafna rétt til öflunar heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og óháð búsetu og svo framvegis, þannig að það rímar ágætlega saman,“ sagði Svandís í þættinum.

Þar sagði hún jafnframt: „Eitt af því fyrsta sem að ég mun gera í ráðuneytinu er að fá ítarlega úttekt á stöðu þessara einkavæðingarmála undanfarin ár þannig að við vitum nákvæmlega á hvaða stað við erum í raun og veru stödd.“

Það verður áhugavert að sjá niðurstöður þessarar úttektar og gott að ráðherra mun standa í vegi fyrir frekari einkavæðingu. Fjárlögin sem lögð verða fram fljótlega munu svo vonandi bera þess skýr merki að leggja eigi af stað í þá miklu uppbyggingu sem þörf er fyrir í heilbrigðiskerfinu.

Nánar er fjallað um rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar og baráttuna um heilbrigðiskerfið hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?