SLFÍ samþykkir nýjan kjarasamning

Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) hefur samþykkt nýjan kjarasamning við ríkið í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Alls greiddu 59,9% þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði. Af þeim sem greiddu atkvæði sögðu 96,25% já en 3,30% höfnuðu samningnum. Auðir og ógildir seðlar voru 3.

SLFÍ er þar með fyrsta aðildarfélag BSRB sem samþykkir nýjan kjarasamning við ríkið í þessari samningalotu. Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Landssambands lögreglumanna hófst síðan í dag og mun henni ljúka um miðja næstu viku. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu ætti að vera ljós á miðvikudag, 18. október.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SFR við ríkið stendur nú einnig yfir og mun henni ljúka á mánudaginn næsta, 16. október. Niðurstaða ætti að liggja fyrir samdægurs.

Önnur aðildarfélög BSRB hafa flest ekki náð að klára sína samninga en viðræður þeirra flestra standa nú yfir við bæði ríki og sveitarfélög. Fræðast má betur um stöðu kjarasamningsviðræðna aðildarfélaga BSRB í frétt sem birtist fyrr í dag á vef BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?