Sögulegar verkfallsaðgerðir í Finnlandi

Mynd tekin af heimasíðu SAK

Umgangsmiklar verkfallsaðgerðir hófust í Finnlandi miðvikudaginn 31. janúar í þeim tilgangi að mótmæla fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnar landsins á velferðarkerfinu og aðför þeirra að réttindum launafólks. Fjöldamótmæli hafa verið skipulögð í dag, fimmtudag. Verkföllin koma til með að hafa áhrif á starfsemi leikskóla, flugumferð, almenningssamgöngur, námugröft, matvöruverslanir, hótel, byggingariðnað og veitingastaði svo eitthvað sé nefnt.

Ríkisstjórnin í Finnlandi ætlar sér að gera breytingar á velferðarkerfinu og réttindum launafólks sem fela í sér verulegar skerðingar t.d. hvað varðar veikindaleyfi og uppsagnir. Sumar breytinganna hafa þegar tekið gildi. Þá ætlar ríkisstjórnin sér að skerða verulega verkfallsréttinn m.a. með því að sekta finnskt launafólk persónulega sem tekur þátt í verkföllum sem eru úrskurðuð óréttmæt. Finnsk heildarsamtök launafólks hafa bent á að nái tillögurnar fram að ganga yrði það svo stórt bakslag í réttindum launafólks að það jafnast á við að fara 50 ár aftur í tímann. Breytingarnar muni bitna verst á fólki á lægstum launum, sér í lagi konum. Þá muni áætlanir ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum auka ójöfnuð verulega í samfélaginu.

 

Því hefur finnska verkalýðshreyfingin tekið höndum saman og boðað til sögulega umfangsmikilla verkfallsaðgerða sem yfir 300.000 taka þátt í. Vonir standa til þess að ríkisstjórn Finnlands neyðist til að semja við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegar stefnu- og lagabreytingar.

Við hjá BSRB sendum félögum okkar og launafólki öllu í Finnlandi baráttukveðjur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?