Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna stærsta jafnréttismálið

Sonja á kvennaþingi

Í vor verða liðin 40 ár frá stofnun Kvennalistans. Af því tilefni buðu Kvennalistakonur til opins kvennaþings þar sem staða kvenna í íslensku þjóðfélagi var rædd.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hélt erindi á fundinum undir yfirskriftinni „Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna?”

Hún minnti á að stærsta skrefið sem við getum tekið í átt að fullu jafnrétti kynjanna sé ótvírætt að tryggja konum örugga framfærslu og fjárhagslegt sjálfstæði. Þar þurfi að horfa til atvinnuþátttöku, starfsaðstæðna, launa og lífeyrisgreiðslna – en líka takast á við rótgróin viðhorf um ólíka stöðu og hlutverk kynjanna sem viðhalda megnu ójafnrétti. Hú segir það krefjast umfangsmikilla aðgerða af hálfu stjórnvalda en að forystufólki í atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni, í skólum, félagasamtökum og íþróttahreyfingunni beri einnig skylda til að halda mikilvægi jafnréttis á lofti og sýni vilja í verki.

Þá héldu Tatiana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, Finnborg Salome ÞóreyjarSteinþórsdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við HÍ, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kvennalistakona, og Jóna Þórey Pétursdóttir, mannréttindalögfræðingur, einnig erindi.

Í anda kvennalistans var gefið nægt svigrúm til umræðna í hópum þar sem m.a. var rætt um frið og öryggi, kjaramál, umhverfismál, ofbeldi, heilsu kvenna, þriðju vaktina, lífeyrismál kvenna og fleira.

Upphafsglæra úr kynningu Sonju


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?