Sonja ræðir Kvennaverkfall í Kastljósi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fór yfir áform og ástæður fyrirhugaðs Kvennaverkfalls í Kastljósi í gær, þar sem hún var gestur Bergsteins Sigurðssonar.
 
Aðspurð um ástæður þess að á fjórða tug samtaka hafa boðað til heils dags Kvennaverkfalls 24. október sagði Sonja „Stóra kvennaverkfallið 1975 var heils dags verkfall, en síðustu skipti hefur verið reiknaður ákveðinn útgöngutími kvenna miðað við mun á meðal atvinnutekjum kynjanna og þá var ekki allur dagurinn undir. En núna snúna meginkröfurnar að því að útrýma kynbundnu ofbeldi og að látið verði af kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum og til þess að draga þær betur fram, og til að vekja athygli á annarri og þriðju vaktinni þ.e. þessum ólaunuðu störfum og skipulagi sem konur sinna í meiri mæli, var ákveðið að hafa þetta heilan dag í ár rétt eins og árið 1975."

Sonja fór einnig yfir hvaða þýðingu Kvennaverkfallið hefur sem baráttudagur og sagði frá því að hvatt sé til þess að bæði konur og kvár leggi niður launuð sem ólaunuð störf í heilan dag sem þýddi þá að sleppa öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Svo væru þau hvött til að mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.

Þá var hún einnig spurð hvort konur og kvár sem tækju þátt í verkfallinu gætu átt von á launaskerðingu, „Atvinnurekendur hafa hingað til á Kvennafrídaginn ekki verið að draga laun af konum eða refsa þeim fyrir þátttöku svo við vitum af, ekki einu sinni árið 1975 þegar um miklu róttækari aðgerð var að ræða. Við höfum enn ekki heyrt af því að atvinnurekendur ætli með einhverjum hætti að hamla konum þátttöku heldur þvert á móti vitum við um marga atvinnurekendur sem hafa nú þegar sent hvatningarbréf til síns starfsfólks að þau séu hvött til að taka þátt og það muni ekki hafa í för með sér launaskerðingu," sagði Sonja.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér.

Meira um kvennaverkfallið á www.kvennaverkfall.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?