Staða kjarasamninga aðildarfélaga BSRB

SFR, fjölmennasta aðildarfélag BSRB, hefur samþykkt nýja kjarasamninga við ríkið í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna sinna.  Samningurinn var samþykktur með 61,92% atkvæða. Á kjörskrá voru 3933, þar af kusu 1581. Já sögðu 61.92%, eða 979 og 35,08% sögðu nei eða 566. Auð atkvæði voru 36 eða 2,28%. Kjörsókn var 40,20%.

SFR bætist þar í hóp Félags opinberra starfsmanna Austurlandi, Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi, Starfsmannafélags Fjarðabyggðar, Starfsmannafélags Garðabæjar, Starfsmannafélags Suðurnesja, Starfsmannafélags Kópavogs og Starfsmannafélags Hafnarfjarðar sem samþykktu í atkvæðagreiðslu fyrr í vikunni sína samninga við ríkið.

Öll bæjarstarfsmannafélög BSRB sem semja við ríkið hafa því gert nýja kjarasamninga. Atkvæðagreiðslur um þá samninga standa yfir hjá þeim félögum sem hafa ekki þegar samþykkt og eru nefnd hér að ofan. Niðurstöður úr þeim atkvæðagreiðslum ættu að liggja fyrir fljótlega eftir páska.

Þá hefur Póstmannafélag Íslands samþykkt sína samninga við Íslandspóst og félagsmenn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins hafa samþykkt nýja samninga við Ríkisútvarpið ohf.

Fyrir síðustu helgi undirritaði síðan Félag starfsmanna stjórnarráðsins nýjan kjarasamningin við ríkið. Sá samningur er sambærilegur þeim sem aðildarfélög BSRB hafa verið að gera að undanförnu.

Þau aðildarfélög BSRB sem enn eiga eftir að semja við ríkið eru Tollvarðafélags Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Landssamband lögreglumanna og Landssamband slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna. Þá á Félag flugmálastarfsmanna ríkisins en eftir að ganga frá samningum við sinn viðsemjanda sem er Isavia. Eins og kunnugt er hafa félagsmenn FFR ásamt félagsmönnum LSS og SFR sem starfa hjá Isavia boðað verkstöðvanir takist ekki að semja. Næsta vinnustöðvun hefur verið boðuð næstkomandi miðvikudag, 23. apríl.

Þá hefur Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar samþykkt í atkvæðagreiðslu á meðal sinna félagsmanna nýja samninga við Reykjavíkurborg. Önnur bæjarstarfsmannafélög BSRB hafa ekki samið við Samband íslenskra sveitarfélaga enn sem komið er enda renna kjarasamningar við sveitarfélögin almennt ekki út fyrr en í lok júlí. BSRB hefur átt fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninganna og fyrirhugað er að hittast aftur fljótlega eftir páska.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?