Staða kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við SNR

Meirihluti bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB hefur nú undirritað nýja kjarasamninga við Samninganefnd ríkisins. Nú síðast skrifaði FOSS, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi, undir nýjan kjarasamning við ríkið en það gerðist seinnipartinn í gær. Samningurinn nær til félagsmanna FOSS sem starfa hjá ríkinu. Kjarasamningurinn er sambærilegur þeim sem önnur bæjarstarfsmannafélög BSRB hafa gert við ríkið á síðustu dögum.

 

Flest bæjarstarfsmannafélög BSRB búin að semja við ríkið

Þar með hafa 12 af 15 bæjarstarfsmannafélögum BSRB sem eiga félagsmenn sem starfa hjá ríkinu skrifað undir nýja kjarasamninga við Samninganefnd ríkisins (SNR). Kjölur-stéttarfélag í almannaþjónustu á enn eftir að klára kjarasamninga við ríkið en viðræður hafa staðið yfir síðustu daga. Kjölur telur um 1000 félagsmenn sem starfa á svæðunum í kringum Akureyri og allt vestur til Borgarness. Þá er enn ósamið við Starfsmannafélag Fjarðarbyggðar. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (St.Rv) á einnig eftir að ganga frá kjarasamningi við SNR en St.Rv. hefur gengið frá nýjum samningum við Reykjavíkurborg þar sem mikill meirihluti félagsmanna St.Rv. starfar.

Rétt er að taka fram umræddir samningar ná einvörðungu til félagsmanna þessara aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu, fyrir utan samning St.Rv og Reykjavíkurborgar. En er ósamið við önnur sveitarfélög en flestir kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við sveitarfélögin gilda fram á mitt sumar.

 

Enn ósamið hjá fagfélögum BSRB

Þá hefur Sjúkraliðafélag Íslands undanfarna daga verið í samningaviðræðum við SNR en Tollvarðafélag Íslands og Landssamband lögreglumanna hafa enn ekki fundað með samninganefndinni. Þá á Félag starfsmanna stjórnarráðsins enn eftir að ganga frá samningum við ríkið.

 

Ólík staða hjá ohf-félögunum

Nýverið samþykkti Póstmannafélagið samninga við Íslandspóst ehf. á meðan samningaviðræður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins við Rúv ohf. hafa tafist vegna skipulagsbreytinga innan stofnunarinnar. Þá hafa samningaviðræður BSRB-félaganna þriggja sem semja við Isavia siglt í strand líkt og sagt hefur verið frá í fréttum undanfarna daga. Félögin sem hér um ræðir – Félag flugmálastarfsmannaríkisins, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og SFR – hafa samþykkt verkföll og munu að óbreyttu leggja niður störf í nokkrum lotum nú í aprílmánuði. Fyrsta vinnustöðvunin mun hefjast kl. 4 að morgni þriðjudagsins 8. apríl hafi samningsaðilar ekki komist að samkomulagi fyrir þann tíma.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?