Starfsmannafélag RÚV gengur inn í Sameyki

SRÚ hefur nú gengið inn í Sameyki.

Félagsmenn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins (SRÚ) samþykktu nýverið í atkvæðagreiðslu að leggja niður félagið og ganga inn í Sameyki. Aðildarfélögum BSRB hefur því fækkað um eitt þó fjöldi félagsmanna sé óbreyttur.

Aðdragandinn að þessari breytingu hefur verið nokkur, eins og rakið er í frétt á vef Sameykis. SRÚ fékk aukaaðild að SFR í júní 2016 og öðluðust félagsmenn þá full réttindi eins og aðrir félagar í SFR. Eftir sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar í félagið Sameyki var ákveðið að SRÚ gengi inn í sameinað félag.

Félagsmenn í SRÚ halda öllum áunnum réttindum og mun Sameyki taka við samningsumboði fyrir þennan hóp. Sameyki er eftir sem áður stærsta stéttarfélag opinberra starfsmanna á landinu, og þriðja stærsta stéttarfélag landsins, með tæplega 11 þúsund félagsmenn.

Eftir þessa breytingu eru aðildarfélög BSRB 23 talsins, auk þess sem Samband lífeyrisþega ríkis og bæja á aðild að bandalaginu. Félagsmenn eru alls ríflega 22 þúsund.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?