Starfsmenn sveitarfélaga fá líka innágreiðslu

Félagsmenn BSRB hjá ríki, sveitarfélögum og Reykjavíkurborg munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst.

Samkomulag hefur náðst við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna. Eins og í samkomulagi sem gert var við ríkið er kveðið á um að launagreiðendur greiði félagsmönnum aðildarfélaga BSRB 105 þúsund króna innágreiðslu þann 1. ágúst næstkomandi.

Greiðslan er til komin vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga. Í nýjum viðræðuáætlunum kemur fram að stefnt sé að því að ljúka nýjum kjarasamningin fyrir 15. september, en samningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá byrjun apríl.

Í samningaviðræðum við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira og leggur bandalagið áherslu á að þessi flóknu mál verði unnin faglega.

Í endurskoðaðri viðræðuáætlun við ríkið kemur fram að þar sem langt sé síðan kjarasamningar hafi runnið út verði greidd innágreiðsla inn á nýja samninga, 105 þúsund krónur. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Samskonar ákvæði eru í endurskoðuðum áætlunum vegna samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sem aðildarfélög BSRB hafa undirritað, eða munu undirrita á næstu dögum.

Þar er einnig kveðið á um friðarskyldu til 15. september og að stutt hlé verði gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið hefur gengið í kjaraviðræðum yfir hásumarið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?