Stefnan mikilvægur leiðarvísir fyrir BSRB

Stefna BSRB sem unnin var og samþykkt á 44. þingi bandalags haustið 2015 hefur verið bandalaginu gott leiðarljós í starfseminni í kjölfar þingsins, sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í ávarpi sínu á aðalfundi BSRB í dag.

Hún sagði stefnuna vera mikilvægan leiðarvísi og að bandalagið hafi þegar beitt sér á ýmsan hátt til að framfylgja henni. Dæmi um það er barátta BSRB gegn fyrirhugaðri einkavæðingu í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Áform heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilsugæslunni ganga beint gegn stefnu BSRB, og höfum við því andmælt henni harðlega. Í stefnu BSRB er skýrt að almannaþjónustu ber að reka á samfélagslegum grunni, af opinberum aðilum þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag,“ sagði Elín Björg.

Hún sagði þetta ekki ganga upp nema almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera, og að það fái að skipuleggja, stýra og fjármagna hana á grundvelli jafnræðis.

Göfugt markmið en óboðleg aðferð

„BSRB hefur einnig beitt sér gegn því, að gjaldskrárhækkanir leggist á stóran hluta landsmanna í heilbrigðisþjónustunni, eins og boðað er í öðru frumvarpi heilbrigðisráðherra. Markmiðið með því frumvarpi er göfugt, að setja þak á greiðslur þeirra sem mest nota heilbrigðiskerfið. Það þarf að gera strax, og hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. En aðferðin sem ráðherrann boðar er einfaldlega ekki boðleg, að hækka greiðslur þeirra sem nota þjónustuna minna til að jafna út kostnaðinn,“ sagði Elín.

„Þá vantar ýmislegt inn í frumvarpið, til dæmis sálfræðikostnað, tannlæknakostnað og fleira. Einnig virðist sem heilsugæslan sé svo fjársvelt að hún megni ekki, að takast á við það hlutverk sem henni er ætlað, að vera raunverulegur fyrsti viðkomustaður sjúklinga, áður en þeir fara til sérfræðilækna.“

Elín Björg fór einnig í gegnum vinnu starfshóps BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar, og þann góða árangur sem náðst hefur í tilraunaverkefni borgarinnar. Þá sagði hún það sérstakt tilhlökkunarefni að vinna með stjórnvöldum að tilraunaverkefni sem nú er að fara í gang hjá ríkinu.

„Fjölskylduvænna samfélag hefur verið eitt af stóru baráttumálum BSRB á undanförnum árum og stytting vinnuvikunnar er mikilvægur þáttur í því. Það er því fagnaðarefni að bæði Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin séu tilbúin að skoða með vísindalegum hætti áhrifin af styttingu vinnuvikunnar,“ sagði Elín Björg.

Farið yfir lífeyrismálin og Salek
Eftir ávarp formanns var farið sérstaklega tvö stór mál á aðalfundi BSRB. Fyrst fór Árni Stefán Jónsson, fyrsti varaformaður bandalagsins og formaður SFR, yfir stöðuna í viðræðum bandalaga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög um jöfnun lífeyrisréttinda á almenna og opinbera markaðinum.

Hann sagði það skýra kröfu að samhliða slíkri breytingu verði viðsemjendur opinberra starfsmanna að jafna laun starfsmanna á opinbera markaðnum og þeim almenna.

Að loknum umræðum um lífeyrismálin fjallaði Elín Björg um stöðuna í Salek-viðræðunum. Fundarmenn höfðu ýmsar spurningar um málið, sumar tæknilegs eðlis en aðrar snérust um grundvallaratriði og hugmyndafræði Salek.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?