Stjórnendur þurfa fræðslu um áminningarferlið

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB

Margir stjórnendur virðast stytta sér leið þegar þeir beita áminningum og skapa um leið ríki og sveitarfélögum skaðabótaábyrgð. Ljóst er að hluti stjórnenda þarf á fræðslu og stuðning að halda hvað þessi mál varðar. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli lögfræðings BSRB á aðalfundi Vinnuréttarfélags Íslands, sem haldinn var hinn 19. nóvember sl. Á fundinum var til umræðu hvort afnema eigi áminningarskyldu úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en stjórnvöld hafa boðað áform sín um slíka breytingu.

 

Fullyrðingar sem standast ekki skoðun

Hrannar Már Gunnarsson lögfræðingur BSRB var þar með erindi á fundinum ásamt Lísbet Sigurðardóttur lögfræðingi Viðskiptaráðs. Að loknum umræðum þeirra tveggja voru fjörlega umræður meðal viðstaddra, en fundurinn var vel sóttur enda umræðuefnið afar áhugavert.

Í erindi sínu lagði Hrannar áherslu á að umræðan undanfarna mánuði, þar sem því sé haldið fram að opinberir starfsmenn séu ósnertanlegir í sínum störfum og ekki hægt að bregðast við því ef þess krefst, sé einfaldlega röng. Það hefur komið fram að stjórnendur ríkisins telji áminningarferlið þungt í vöfum og jafnvel að þeim sé ómögulegt að fylgja reglunum vegna þess hversu flóknar þær eru. Viðskiptaráð hefur í málflutningi sínum bent á dæmi þess að ríkið hafi verið dæmt skaðabótaskylt vegna uppsagna, en Hrannar benti á að í þeim tilfellum hafi lögum einfaldlega ekki verið fylgt. Þar höfðu stjórnendur stytt sér leið og sleppt því að fylgja lögum og reglum, sem varð til þess að ríkið varð skaðabótaskylt. Af þeim sökum megi fremur horfa til þess að auka fræðslu og stuðning við stjórnendur ríkisins vegna slíkra mála.

 

Allir vegir færir

Hrannar fór yfir sögulegar ástæður áminningarskyldu hér á landi og vísaði til tveggja nýlegra dóma Landsréttar, nr. 231/2024 og 530/2024. Málin eiga það sameiginlegt að í þeim var opinberum starfsmönnum veitt áminning og síðar uppsögn vegna tiltekinna aðfinnsla við störf þeirra. Dómarnir tveir sýna að stjórnendum ríkis og sveitarfélaga eru allir vegir færir ef þeir þurfa að taka á starfsmannamálum, enda tekur Landsréttur fram í báðum niðurstöðum sínum að það verði að játa stjórnendum nokkurt svigrúm við mat á því hvort tilefni sé til að áminna starfsfólk.

Þessi tregða við að beita reglunum er eitthvað sem mætti skoða betur, fremur en að afnema reglurnar. Hrannar benti á að í Danmörku megi í raun finna áminningarkerfi áður en til uppsagnar getur komið og nær það til alls vinnumarkaðar. Íslensk stjórnvöld horfa oft til Danmerkur sem fyrirmyndar, og nú nýlega var birt skýrsla um embættismannakerfið hér á landi þar sem margar af tillögunum draga fyrirmynd sína frá Danmörku. Það væri því eðlilegt að horft verði einnig til Danmerkur þegar kemur að reglum um áminningar og uppsagnir, hvort sem um ræðir opinbert starfsfólk eða starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði.