Stjórnvöld leysi bráðavanda í sjúkraflutningum

Þingmenn úr öllum flokkum kynntu sér tækjabúnað slökkviliðsmanna á fundi með forystufólki úr LSS.

Forsætisráðherra og þrettán þingmenn úr öllum flokkum kynntu sér starfsemi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á fundi sem fram fór í húsnæði BSRB á fimmtudag.

„Það er mikilvægt að yfirvöld þekki til starfsemi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og viti hvað brennur á þessari mikilvægu stétt þjóðfélagsins,“ sagði Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSS, eftir fundinn.

Á fundinum var ráðherra og þingmönnum kynntur tækjabúnaður slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og mikilvægi þess að gera átak í að endurnýja sjúkrabíla og leysa þann hnút sem þau mál eru í . „Ríkið verður að vinna með okkur við að leysa bráðavanda sjúkrabíla á Íslandi, því það eru mannslíf í húfi,“ segir Birkir Árnason, formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna LLS. Þingmenn voru í kjölfarið hvattir til að kynna sér nýútgefna skýrslu um sjúkraþyrlu á Suðurlandi og sérálit frá þeim sem starfa við bráðaþjónustu á Íslandi.

Þá var vakin athygli á því hve hægt gengur að fá konur inn í þessa starfsgrein. Konur eru í dag einungis fimm prósent þeirra sem sinna þessum störfum en þó hefur örlítil aukning orðið milli ára, segir Hermann.

Fá ekki sálfræðistuðning frá ríkinu

Menntunarmál stéttarinnar hafa verið í brennidepli að undanförnu og aðgengi að sálfræðiþjónustu. Á fundinum var vakin athygli á því að ríkið hafnaði nýverið aðkomu að samkomulagi Sambands íslenskra sveitarfélaga og LSS um frían sálfræðistuðning fyrir félagsmenn.

Einnig var þingmönnum bent á þá staðreynd að tíðni krabbameina hjá slökkviliðsmönnum hefur aukist og nú er verið að vinna að því að fá krabbamein hjá félagsmönnum viðurkennt sem atvinnusjúkdóm.

Þá fengu þingmenn kynningu á bráðaþjónustu utan spítala og umfangi verkefna sem yfirlæknir bráðaþjónustu utan spítala á að sinna í 50 prósent starfi án fjármagns og mannafla.

Eykur öryggi íbúa

Á fundinum var loks farið yfir menntunarmál slökkviliðsmanna og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Nýútgefin reglugerð um rekstur slökkviliða var rædd. „Mikilvægt er að ríkið styðji við sveitarfélögin við innleiða þessa reglugerð þar sem hún eykur öryggi íbúa landsins til muna,“ segir Steinþór Darri Þorsteinsson, varaformaður LSS.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?