Stöndum með hinsegin fólki

Gleðigangan leggur af stað frá gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis klukkan 14 laugardaginn 12. ágúst.

Hinsegin dagar eru nú í fullum gangi og ná hámarki með gleðigöngu á laugardaginn. BSRB hvetur landsmenn til að taka þátt og sýna samstöðu með hinsegin fólki; hommum, lesbíum, öðrum sem taka þátt í Hinsegin dögum, fjölskyldum þeirra og vinum.

Eitt af hlutverkum BSRB er að gæta að því að mannréttindi allra séu virt. Eins og fram kemur í stefnu bandalagsins felst í því meðal annars að allir eigi rétt á að njóta mannréttinda án þess að vera mismunað, óháð kynferði, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, aldurs, trúar, tungumáls, búsetu, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu, fötlunar eða efnahags.

Hinsegin dagar hafa verið árviss viðburður í næstum tvo áratugi. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í málefnum hinsegin fólks er enn stutt í fordóma og mismunun. Sýnileiki Hinsegin daga hefur mikið að segja og þátttaka í hátíðarhöldum sýnir að okkur er ekki sama og að fordómar vegna kynhneigðar eru óásættanlegir og eiga ekki að fyrirfinnast í okkar samfélagi.

Stöndum saman og skellum okkur í gleðigöngu á laugardaginn!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?