Stór mál undir á þingi ITUC í Kaupmannahöfn

Íslenska sendinefndin stillti sér upp með Sharan Burrow, framkvæmdastjóra ITUC (4. frá hægri), sem íslensku fulltrúarnir styðja til endurkjörs.

Yfir 1.200 fulltrúar launafólks frá 132 löndum taka þátt í heimsþingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) sem stendur yfir þessa viku í Kaupmannahöfn. Mörg stór mál eru þar til umfjöllunar, en formaður og framkvæmdastjóri BSRB sitja þingið fyrir hönd bandalagsins.

Heildarsamtökum sem aðild eiga að ITUC  hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum sem auðveldar sambandinu að ná fram sínum stefnumálum. João Antonio Felicio, forseti ITUC, sagði í ávarpi á opnunarathöfn þingsins að sambandið verði áfram virkt í pólitískri umræðu. Hlutverk þess verði eftir sem áður að berjast fyrir réttindum launafólks og gæta hagsmuna þess.

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin byggir á alþjóðlegri samstöðu og samvinnu og er því stærsta friðarhreyfing í heimi, sagði Lizette Risgaard, forseti LO í Danmörku, í ávarpi á opnunarhátíð þingsins. Friður, lýðræði og mannréttindi eru meðal þess sem rætt hefur verið á þinginu, auk umhverfismála, aukins ójöfnuðar í heiminum og fjölda annarra málaflokka.

Tækifæri á framtíðarvinnumarkaðinum

Eitt af því sem fjallað var um í gær var framtíðarvinnumarkaðurinn og áhrif fjórðu iðn- og tæknibyltingarinnar. Þar kom fram að viss hræðsla hafi verið við þær breytingar sem tækniþróunin mun hafa í för með sér þegar störf muni hverfa vegna gervigreindar, róbótavæðingu og öðrum tækniframförum. Á móti er bent á rannsóknir sem sýna að það séu fleiri tækifæri en hindranir á vinnumarkaði tengt þessari þróun. Þó verði að gæta þess breytingarnar leiði ekki til aukins ójöfnuðar, en þar er verkalýðshreyfingin í góðri stöðu til að hafa áhrif.

Samtök launafólks um allan heim geta brugðist við með því að greina þær breytingar sem eru framundan, en það þarf að gera í góðu samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld. Hafa verður í huga að það er margt fleira sem hefur áhrif á vinnumarkað framtíðarinnar en tækniframfarir, til dæmis hækkandi lífaldur, fólksflutningar, lægri fæðingartíðni og loftslagsbreytingar.

Tryggja þarf réttindin

Meðal þess sem verkalýðshreyfingin þarf að tryggja er að réttindi launafólks haldi í við breyttan veruleika með það að markmiði að tryggja mannsæmandi laun og réttindi í kjarasamningum og lögum. Útvíkka þarf hugtökin yfir ráðningarform sem notast er við í kjarasamningum til að tryggja að þeir veiti lágmarksréttindi. Þannig hefur fjöldi landa gripið til aðgerða til að sporna við samningum þar sem starfsfólk er ráðið í tímavinnu í stað starfshlutfalls.

Þá er mikil áhersla á framboð menntunar fyrir launafólk svo það geti þróað sína hæfni og tekist á við nýjar áskoranir á vinumarkaði. Þá þarf einnig að tryggja að skattkerfið sé réttlátt, til dæmis með því að tryggja skattheimtu tekna frá alþjóðlegum fyrirtækjum.

Hægt er að kynna sér það sem fram fer á 4. heimsþingi ITUC hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?