Störf í þína þágu

BSRB mun næstu daga minna á mikilvægi opinberra starfa fyrir samfélag okkar með auglýsingum bæði á netinu og í dagblöðum. Undanfarin ár hefur mikill niðurskurður orðið á opinberri þjónustu sem hefur skert lífsgæði allra sem í landinu búa. Þá hefur neikvæð umræða um starfsfólk almannaþjónustunnar verið óþarflega áberandi undanfarna mánuði, m.a. innan veggja þingsins.

BSRB vill minna á að öflug almannaþjónusta stuðlar að jafnrétti, öryggi og réttlátara samfélagi. Skerðing opinberrar þjónustu er skerðing á lífsgæðum allra sem í landinu búa. Án vel mannaðrar opinberrar þjónustu horfum við upp á gjörbreytt samfélag. Það er þess vegna hagur okkar allra að grunnstoðir samfélagsins séu sterkbyggðar.

BSRB vill hvetja stjórnvöld til að efla almannaþjónustuna í stað þess að veikja hana. Þá hvetur BSRB til þess að almenningur taki þátt í að hvetja stjórnvöld til að efla almannaþjónustuna og styðja við hana. Það fólk sem þjónar okkur í fjölbreyttum störfum hjá hinu opinbera er stolt af störfum sínum og án þeirra væri samfélag okkar allt annað.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?