Störfum hefur sannarlega fækkað hjá ríkinu

BSRB birti á mánudag frétt þess efnis að störfum hjá ríkinu hefði fækkað um 10,6% frá árinu 2008. Vegna athugasemda Viðskiptaráðs við þá frétt vill BSRB árétta að eftirfarandi atriði skýra mismun þeirra talna sem VÍ og BSRB fara fram með:


  • Viðskiptaráð heldur því fram að árið 2000 hafi ríkisstarfsmenn verið 14.000 og byggir það á svari fjármálaráðherra frá 19. nóvember árið 2009. Í því svari ráðherra kemur einnig fram að um 1500 starfsmenn ríkisins hafi á þeim tíma verið í öðrum launakerfum. Árið 2006 voru þessi störf færð í launavinnslukerfi ríkisins. Því fjölgaði í launavinnslukerfi ríkisins sem nemur þessum 1500 stöðugildum án þess að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað.
  • Við lokatöluna bætir VÍ þeim 905 stöðugildum sem fóru frá ríki til sveitarfélaga við tilfærslu málefna fatlaðra. Þeir starfsmenn eru ekki lengur ríkisstarfsmenn. VÍ reynir þarna að leiðrétta fyrir flutningum á milli ríkis og sveitarfélaga en gerir það bara í aðra áttina. T.d. er ekki tekið tillit til tilfærslu verkefna í hina áttina. En á umræddu tímabili fóru 1300 störf frá sveitarfélögum til ríkis við sameiningu Borgarspítala og Landsspítala.
  • VÍ ber saman tölur í aprílmánuði frá árinu 2000 en ársmeðaltal á árinu 2013. Miklar sveiflur eru á fjölda starfsmanna á milli mánaða vegna komu námsmanna á vinnumarkað yfir sumartímann. Því er mikilvægt að bera saman sambærilegar tölur á milli ára til að fá sem réttastar niðurstöður. Ef bornar eru saman apríltölur frá árinu 2000-2014 er fjölgun stöðugilda hjá ríkinu 2,8%. Í tölum BSRB er notað ársmeðaltal ársins 2000 og meðaltal síðustu 12 mánaða. Fjölgunin samkvæmt þeim tölum var á tímabilinu 5,6% líkt og kom fram í upphaflegri frétt BSRB. Þannig eru notaðar sambærilegar tölur fyrir bæði tímabilin.
  • Meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu árið 2000 var því 15.700 þegar notað er ársmeðaltal og tekið er tillit til þeirra sem voru í öðrum launakerfum. Meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu síðustu 12 mánuði var 16.600. Þegar bætt er við þeim starfsmönnum sem voru í öðrum launakerfum, einungis eru teknir með starfsmenn sem eru ríkisstarfsmenn í upphafi og lok tímabilsins (án tilfærslna verkefna í báðar áttir) og bornar eru saman sambærilegar tölur (ársmeðaltöl) á milli ára þá er niðurstaðan að fjöldi stöðugilda hjá ríkinu jókst um 5,6% frá árinu 2000-2014.

BSRB stendur því við fyrri útreikninga sína varðandi fjölda starfa hjá ríkinu og ítrekar orð sín um að umræða verði að byggja á réttum upplýsingum, þar sem sambærilegar tölur á milli ára eru bornar saman.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?