Störfum hjá ríkinu fækkað um nærri 11%

Störfum hjá ríkinu hefur fækkað um 10,6% frá 2008. Ef litið er aftur til aldamóta má sjá að starfsmönnum ríkisins hefur fjölgað um 5,6% frá árinu 2000 á meðan fjöldi starfandi á vinnumarkaðnum öllum hefur aukist um 11,8%. Tölurnar eru byggðar á upplýsingum frá Hagstofunni og Fjármálaráðuneytinu.

Þessar upplýsingar stangast á við fullyrðingar Viðskiptaráðs sem nýverið efndi til fundar um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Þar kom fram að ríkisstarfsmönnum hefði fjölgað um 29% frá aldamótum. Einnig var tekið fram að aðhaldsaðgerðir síðustu ára hafi ekki fækkað starfsmönnum ríkisins frá 2008 til 2014 um nema 3%. Þessar fullyrðingar eru rangar.

Ef fækkun starfsmanna ríkisins frá því í kringum efnahagshrunið er skoðuð má sjá að þeim hefur fækkað til muna. Árið 2008 var fjöldi stöðugilda hjá ríkinu alls 18.500 en árið 2014 voru þau orðin 16.600. Það er fækkun um 1900 stöðugildi eða um 10,6%.

Þegar litið er aftur til aldamóta sést að meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu árið 2000 var 15.700 samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaráðuneytinu. Árið 2014 voru stöðugildin orðin 16.600 sem gerir um 5,6% frá aldamótum. Á sama tímabili hefur fjöldi starfandi á vinnumarkaði öllum aukist um 11,8% og fólksfjölgun í landinu hefur verið 16,7%.

Fullyrðingar um gríðarlega fjölgun ríkisstarfsmanna frá aldamótum og að aðhaldsaðgerðir ríkisins frá efnahagshruni hafi lítil áhrif haft á fjölda ríkisstarfsmanna eru því með öllu ósannar. Staðreyndir málsins eru að ríkisstarfsmönnum hefur fækkað til muna á síðustu sex árum samhliða miklum niðurskurði á þeirri þjónustu sem ríkið kýs að veita íbúum landsins.

Það er skýr krafa BSRB að umræða um hagræðingu í rekstri ríkisins og skynsama ráðstöfun á fjármunum verði að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum byggðum á rangfærslum, sem virðast vera settar fram í þeim tilgangi að réttlæta frekari niðurskurð.


Vegna athugasemda Viðskiptaráðs við fréttina hér að ofan vill BSRB árétta að eftirfarandi atriði skýra mismun þeirra talna sem VÍ og BSRB fara fram með.

  • Viðskiptaráð heldur því fram að árið 2000 hafi ríkisstarfsmenn verið 14.000 og byggir það á svari fjármálaráðherra frá 19. nóvember árið 2009. Í því svari ráðherra kemur einnig fram að um 1500 starfsmenn ríkisins hafi á þeim tíma verið í öðrum launakerfum. Árið 2006 voru þessi störf færð í launavinnslukerfi ríkisins. Því fjölgaði í launavinnslukerfi ríkisins sem nemur þessum 1500 stöðugildum án þess að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað.
  • Við lokatöluna bætir VÍ þeim 905 stöðugildum sem fóru frá ríki til sveitarfélaga við tilfærslu málefna fatlaðra. Þeir starfsmenn eru ekki lengur ríkisstarfsmenn. VÍ reynir þarna að leiðrétta fyrir flutningum á milli ríkis og sveitarfélaga en gerir það bara í aðra áttina. T.d. er ekki tekið tillit til tilfærslu verkefna í hina áttina. En á umræddu tímabili fóru 1300 störf frá sveitarfélögum til ríkis við sameiningu Borgarspítala og Landsspítala.
  • VÍ ber saman tölur í aprílmánuði frá árinu 2000 en ársmeðaltal á árinu 2013. Miklar sveiflur eru á fjölda starfsmanna á milli mánaða vegna komu námsmanna á vinnumarkað yfir sumartímann. Því er mikilvægt að bera saman sambærilegar tölur á milli ára til að fá sem réttastar niðurstöður. Ef bornar eru saman apríltölur frá árinu 2000-2014 er fjölgun stöðugilda hjá ríkinu 2,8%. Í tölum BSRB er notað ársmeðaltal ársins 2000 og meðaltal síðustu 12 mánaða. Fjölgunin samkvæmt þeim tölum var á tímabilinu 5,6% líkt og kom fram í upphaflegri frétt BSRB. Þannig eru notaðar sambærilegar tölur fyrir bæði tímabilin.
  • Meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu árið 2000 var því 15.700 þegar notað er ársmeðaltal og tekið er tillit til þeirra sem voru í öðrum launakerfum. Meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu síðustu 12 mánuði var 16.600. Þegar bætt er við þeim starfsmönnum sem voru í öðrum launakerfum, einungis eru teknir með starfsmenn sem eru ríkisstarfsmenn í upphafi og lok tímabilsins (án tilfærslna verkefna í báðar áttir) og bornar eru saman sambærilegar tölur (ársmeðaltöl) á milli ára þá er niðurstaðan að fjöldi stöðugilda hjá ríkinu jókst um 5,6% frá árinu 2000-2014.

BSRB stendur því við fyrri útreikninga sína varðandi fjölda starfa hjá ríkinu og ítrekar orð sín um að umræða verði að byggja á réttum upplýsingum, þar sem sambærilegar tölur á milli ára eru bornar saman.


 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?