Styðjum baráttu hinsegin fólks

Regnbogafánarnir eru komnir upp við húsnæði BSRB við Grettisgötuna.

Þó aflýsa hafi þurft Hinsegin dögum þetta árið heldur baráttan fyrir því að mannréttindi allra séu virt áfram. Við höfum nú híft upp regnbogafánana við húsnæði BSRB við Grettisgötuna til að minna á þessi mikilvægu skilaboð.

Hinsegin dagar áttu að hefjast í gær, mánudag, og ná hámarki með gleðigöngu um næstu helgi. Vegna fjöldatakmarkana til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 verður viðburðunum aflýst í bili. Þó stendur til að vera með viðburði á netinu og færa fræðslu sem átti að veita á hátíðinni inn í veturinn.

Þó ekki sé hægt að halda Hinsegin daga þetta árið er Facebook-síða Hinsegin daga notuð til að koma skemmtilegum skilaboðum á framfæri. Við hvetjum alla til að fylgjast með síðunni og njóta þeirra viðburða sem hægt er að bjóða upp á í gegnum netið.

Í tvo áratugi hafa Hinsegin dagar minnt okkur á baráttu hinsegin fólks gegn mismunun og fordómum. Þó mikið hafi áunnist á þeim tíma er enn verk að vinna og full þörf á því að styðja hinsegin fólk í baráttunni fyrir þeim grundvallar mannréttindum að geta lifað án þess að upplifa mismunun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?