Stytting vinnutíma gefist vel

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuvikunnar hefur nú staðið yfir í þrjá mánuði og hefur gefist afar vel samkvæmt því sem Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í viðtali við Fréttatímann. Framkvæmdastjóri BSRB á sæti í stýrihóp verkefnisins sem er ætlað að meta árangur af styttingu vinnutíma m.a. út frá gæði þjónustunnar sem veitt er og líðan starfsfólks.

„Það er gríðarleg ánægja með verkefnið meðal starfsmanna hér,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. „Enn eru ekki komnar fram neinar mælingar en við erum komin með þriggja mánaða reynslu og starfsfólkið talar um mikla breytingu,“ segir Halldóra. „Fólk vill leggja mikið á sig til að þetta gangi en að sjálfsögðu hefur það áhrif þegar 35 manns ganga út á hádegi á föstudegi. En á móti erum við með neyðarvakt og við sinnum þeim erindum sem til okkar berast. Það kemur fyrir að fólk vinnur utan vinnutíma en það er þá kannski líka fólk sem hefur ekki skilað sínum vinnutímum yfir vikuna.“

Viðtalið við hana má nálgast í heild sinni hér á síðu Fréttatímans.


 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?