Stytting vinnuviku hefur jákvæð áhrif

Bætt andleg og líkamleg líðan starfsmanna, aukin starfsánægja og minni veikindi var meðal þess sem kom í ljós þegar gerðar voru tilraunir með að stytta vinnuvikuna á tveimur vinnustöðum í Reykjavík. Þrátt fyrir styttri vinnutíma náði starfsfólk að sinna verkefnum sínum til fulls. Niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Reykjavíkurborg og BSRB stóðu sameiginlega að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, sem nú hefur staðið í 14 mánuði á tveimur stórum vinnustöðum borgarinnar. 

Tilraunaverkefnið náði til tveggja starfsstöðva borgarinnar og var útfærslan örlítið mismunandi milli þessara tveggja staða. Þannig var lokaði Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts klukkustund fyrr á daginn á meðan Barnavernd Reykjavíkur lokaði á hádegi á föstudögum.

Krafa BSRB frá árinu 2004
„Stytting vinnuvikunnar hefur verið ein helsta krafa BSRB allt frá árinu 2004. Líkt og aðrar kröfur kemur hún beint frá grasrótinni og færist sífellt ofar á forgangslista yfir kjarabætur félagsmanna,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í erindi sínu á málþinginu fyrr í dag.

Hún sagði kröfu félagsmanna BSRB um breyttan vinnutíma skýra. Ástæðan sé að launafólk upplifi allt of mikið álag og togstreitu á milli fjölskyldu- og atvinnulífs.

„Jákvæðar niðurstöður tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar eru í samræmi við niðurstöður annarra sambærilegra verkefna um styttri vinnutíma í Svíþjóð. Að mati BSRB eru helstu kostir styttingar vinnuviku þeir, að starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði er auðveldað að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf -sem er mikilvæg forsenda þess að við búum í fjölskylduvænu samfélagi,“ sagði Elín.

Launafólk og launagreiðendur njóti ávinningsins
„Hingað til hefur verið alltof lítil áhersla á þennan þátt í stefnumótun stjórnvalda sem og launagreiðenda. Við höfum lagt áherslu á að launafólk og launagreiðendur njóta ávinnings styttingar vinnuviku. Styttri vinnuvika leiðir til betri starfsánægju og aukinna afkasta, bættrar heilsu, meiri vellíðunar og stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna inn á heimilum. Það er því ánægjulegt að fyrstu niðurstöður þessa tilraunaverkefnis styðji þessa sýn,“ sagði Elín Björg.

Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði nýlega starfshóp um tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku án launaskerðingar. Elín Björg sagði það tilhlökkunarefni að taka þátt í því verkefni með ríkinu og sagði reynsluna af tilraunaverkefninu með borginni nýtast vel við þá vinnu.

Niðurstöður verkefnisins má kynna sér í meiri smáatriðum á vef Reykjavíkurborgar. Einnig hvetjum við áhugasama til að sækja sér rafrænt eintak af skýrslunni og kynna sér málin betur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?