Stytting vinnuviku vaktavinnufólks í hnotskurn

Hægt er að lesa allt um styttingu vinnuvikunnar á betrivinnutimi.is.

Það getur verið flókið að kynna sér þær umfangsmiklu breytingar sem framundan eru hjá vaktavinnufólki þann 1. maí næstkomandi þegar vinnuvika þeirra styttist. Nú er hægt að sjá upplýsingar um breytinguna í hnotskurn á vefnum betrivinnutimi.is.

Þann 1. maí mun vinnuvika vaktavinnufólks styttast úr 40 stundum í 36, eða úr 173,33 klukkustundum í 156 að meðaltali í mánuði. Þá getur starfsfólk sem er á þyngstu vöktunum búist við enn meiri styttingu, allt niður í 32 stundir fyrir þau sem eru á þyngstu vöktunum.

Nú þegar vinnufyrirkomulagið verður endurskoðað verða einnig gerðar breytingar á því hvernig launin eru reiknuð út, launamyndunarkerfinu. Þar er þó skýrt markmið að enginn eigi að lækka í launum við breytingarnar og verður því fylgt eftir af fullum þunga af hálfu BSRB og aðildarfélaga bandalagsins.

Þessum breytingum fylgir einnig spennandi tækifæri fyrir vaktavinnufólk sem ekki er í fullu starfshlutfalli. Þeir sem hafa verið í hlutastarfi í vaktavinnu eiga rétt á að hækka hlutfallið á móti styttingunni og hækka þar með í launum.

Fyrir þá sem eru að koma nýir að samtalinu um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu má benda á þessa samantekt á vefnum betrivinnutimi.is, þar sem hægt er að afla sér helstu upplýsinga.

betrivinnutimi.is


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?