Stytting vinnuvikunnar: árangur BSRB

Ísland er eina Evrópuríkið sem hefur tekist að stytta vinnutíma launafólks verulega á síðustu árum. Stytting vinnuvikunnar á Íslandi gerðist ekki af sjálfu sér heldur var samið um hana í kjarasamningum 2020 eftir langt ferli, tilraunaverkefni á fjölmörgum vinnustöðum og mikla baráttu af hálfu BSRB. Þetta kemur fram í nýrri ritröð EPSU, Evrópusamtaka opinberra stéttarfélaga, sem varpar ljósi á styttingu vinnutíma í Evrópu.

Stytting vinnuvikunnar á Íslandi og reynslan af innleiðingu hennar hefur vakið heimsathygli. Fjöldi landa hefur verið að prófa sig áfram með styttri vinnuviku og vísa til Íslands sem fyrirmyndar samhliða því að verkalýðsfélög hafa aukið áherslu sína á styttingu vinnuvikunnar í gegnum kjarasamninga. Dæmi um það er í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Írlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Íslendingar hafa í gegnum tíðina unnið mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og hafa því ekki notið samveru með fjölskyldu og vinum eins mikið og til dæmis aðrar Norðurlandaþjóðir. Árið 2012 unnu karlar á Íslandi að meðaltali 46.9 klukkustundir á viku en konur 41.5 og um sextán prósent þjóðarinnar unnu meira en 50 klukkustundir (sjá töflu úr riti EPSU, heimild Hagstofa Íslands) .

 

Stytting vinnuviku mikilvægt jafnréttismál
BSRB setti styttingu vinnuvikunnar fyrst á dagskrá árið 2004 og hefur frá 2012 haft það að skýru markmiði að stytta vinnutíma fólks frá 40 klukkustundum í 35 klukkustundir fyrir dagvinnu og enn frekari styttingu fyrir vaktavinnu. Markmið BSRB með styttingu vinnuvikunnar er að skapa fjölskylduvænna samfélag þar sem meira jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs. Stytting vinnuvikunnar er einnig mikilvægt jafnréttismál þar sem konur eru líklegri til að minnka starfshlutfall sitt vegna álags heima fyrir með tilheyrandi tekjutapi.

BSRB beitti sér fyrir því að stofnað yrði til tilraunaverkefna svo hægt væri að meta árangurinn af styttingu vinnuvikunnar. Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hófst árið 2015 og stóð fram til ársins 2019 en tilraunaverkefni BSRB og ríkisins hófst í byrjun apríl 2017 og stóð þar til styttingin tók gildi eftir undirritun kjarasamninga. Á fimm ára tímabili tóku mismunandi vinnustaðir hjá hinu opinbera þátt í tilraunaverkefnum sem skiluðu óyggjandi niðurstöðum: styttri vinnuvika jók verulega ánægju starfsfólks án þess að það kæmi niður á skilvirkni eða frammistöðu stofnana sem tóku þátt.

Þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður tilraunaverkefna þurfti að beita launagreiðendur miklum þrýstingi við gerð kjarasamninganna 2020 til að fá breytingar á skipulagi vinnutíma samþykktar og styttingu vinnuvikunnar í allt að 36 vinnustundir á viku. Baráttan skilaði þó árangri og stytting vinnuvikunnar raungerðist á Íslandi.


Söguleg breyting á vinnutíma
Þótt innleiðing styttingar vinnuviku hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig, sér í lagi þegar kemur að auknu flækjustigi vegna vaktavinnu, vinnur starfsfólk í almannaþjónustu nú mælanlega færri klukkustundir á viku án launaskerðingar en áður. Samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands unnu Íslendingar árið 2022 að meðaltali þremur klukkustundum minna á viku en árið 2019. Þetta er stærsta breyting sem hefur orðið á vinnutíma launafólks á Íslandi frá því að 40 stunda vinnuvikan var lögfest fyrir meira en hálfri öld.

Baráttu BSRB er hvergi nærri lokið. Markmið bandalagsins í yfirstandandi kjaraviðræðum er að festa varanlega í sessi styttingu vinnuvikunnar, 36 stundir fyrir allt starfsfólk í almannaþjónustu og allt að 32 stundum fyrir vaktavinnufólk. Ljóst er að einhver atriði þarf að endurskoða og lagfæra, sérstaklega þegar kemur að vaktavinnufólki. Þá er það markmið BSRB að stytta vinnuvikuna frekar á næstu árum svo hún nemi 35 klukkustundum og að sá vinnutími verði lögfestur.

Lestu meira um styttingu vinnuvikunnar hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?