Styttist í Nordisk Forum

BSRB minnir á að í sumar fer fram jafnréttisráðstefnan Nordisk Forum í Malmö í Svíþjóð dagana 12. til 15. júní. Flest stéttarfélög landsins munu styrkja félagsmenn sína til farar á ráðstefnuna og þess vegna er áhugasömum bent á að kanna rétt sinn til þess hjá viðkomandi stéttarfélagi.

Hér má sjá lista yfir aðildarfélög BSRB og heimasíður þeirra en einnig er vakin athygli á því að frá og með laugardeginum mun skráningargjald ráðstefnunnar hækka. Það er því betra að skrá sig sem fyrst ef fólk ætlar á annað borð að fara.

Viðamikil dagskrá verður á Nordiskt Forum sem skiptist gróflega í fernt. Í fyrsta lagi má nefna dagskrána á stóra sviðinu í Malmö Arena þar sem stjörnurnar stíga á stokk. Í öðru lagi er norræna dagskráin sem er hugmyndafræðilegt hjarta ráðstefnunnar. Í norrænu dagskránni verða haldin 24 málþing þar sem áskoranir jafnréttisbaráttunnar verða ræddar og lagðar til lausnir fyrir framtíðina. Í þriðja lagi er í boði afar fjölbreytt dagskrá sem stofnanir og félagasamtök frá öllum Norðurlöndunum standa fyrir. Að lokum verða í boði ýmis konar menningarviðburðir og skemmtilegar uppákomur sem munu setja svip sinn á hátíðarsvæðið og Malmö.

Þátttakendur skrá sig til leiks á heimasíðu Nordiskt Forum, www.nf2014.org, en þar eru allar helstu upplýsingar á íslensku. Þegar fólk skráir sig inn birtast líka möguleikar til þess að bóka hótel og er tilvalið að fara þá leið, þó að vissulega sé einnig hægt að bóka gistingu eftir öðrum leiðum.

https://www.facebook.com/nordisktforum


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?