Styttist í styttingu vinnuvikunnar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB sem undirritaðir voru í vor var samið um styttingu vinnuvikunnar. Þessa dagana er unnið að undirbúningi fræðsluefnis svo vinnustaðir geti með haustinu hafið samtal um styttingu í dagvinnu og stjórnendur geti hafið undirbúning styttingar hjá vaktavinnufólki.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið eitt af stærstu baráttumálum BSRB undanfarin ár. Rannsóknir sýna ótvíræða kosti þess að stytta vinnuvikuna. Ánægja í starfi eykst, heilsa batnar, möguleikar til samþættingar einkalífs og vinnu aukast og jafnrétti eykst án þess að afköst minnki.

Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar verður ólík hjá dagvinnufólki og þeim sem starfa í vaktavinnu. Á þeim vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu mun styttingin byggja á samtali starfsfólks og stjórnenda um hvernig megi nýta tímann betur og á vinnuvikan að styttast í síðasta lagi um næstu áramót. Til að auðvelda fólki að hugsa hlutina upp á nýtt má velta fyrir sér af hverju vinnuvikan er 40 stundir þrátt fyrir að engin vísindaleg rök segi til um að það henti best öllum okkar fjölbreyttu störfum.

Eitt af því sem auðveldar betri nýtingu vinnutíma eru tækniframfarir og ný þekking. Þannig geta til dæmis margir vinnustaðir geta nýtt sér þá nýju þekkingu sem skapaðist um fjarvinnu þegar kórónaveiran herjaði á samfélagið í vor. Sömuleiðis þarf að ræða verklag, vinnufyrirkomulag og hvar sóknarfærin liggja svo að ná megi fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og vinnustaðar af styttri vinnuviku. Þá þarf að ákveða í sameiningu hversu mikið eigi að stytta vinnuvikuna, en heimilt er að stytta um allt að fjórar stundir á viku, og loks hvort styttingin sé dagleg eða vikuleg, svo dæmi séu nefnd.

Allt að átta stunda stytting í vaktavinnu

Á vaktavinnustöðum verður vinnuvikan stytt að lágmarki um fjórar stundir, en að hámarki um átta stundir hjá þeim sem vinna á þyngstu vöktunum. Þar sem breytingin krefst mikils undirbúnings og samtala á vinnustað mun hún taka gildi 1. maí á næsta ári. Þar er í raun um leiðréttingu á vinnutíma að ræða vegna neikvæðra áhrifa þungrar vaktabyrði þar sem unnið er allan sólarhringinn á andlega og líkamlega líðan vaktavinnufólks.

Margir þeirra sem hafa valið sér hlutastarf í vaktavinnu segja að ekki sé hægt að vinna í fullu starfi vegna þess hve þung verkefnin eru og svo mikill tími fari í hvíld milli vakta að raunverulegt frí sé lítið sem ekkert. Vaktavinnufólk sem hefur fram að þessu valið að vera í hlutastarfi getur því eftir breytingarnar unnið jafnmarga tíma en aukið starfshlutfall og þar með hækkað laun sín. Meirihluti vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum eru konur og því um tímabæra og mikilvæga jafnréttisaðgerð að ræða.

Það hefði ekki komið til styttingar vinnuvikunnar nema fyrir mikla baráttu og órjúfanlega samstöðu BSRB félaga. Af því megum við vera stolt. Við hvetjum því félagsmenn til að vera virka í samtalinu framundan á sínum vinnustað og njóta aukins frítíma.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?