Styttri vinnutími – fjölskylduvænna samfélag

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, ritar grein í Reykjavík vikublað sem kom út nú um helgina. Þar fjallar hún m.a. um mögulega hagkvæmni þess að stytta vinnuvikuna. Greinina má sjhá hér að neðan en blaðið í heild sinni má nálgast hér.


Á Íslandi er vinnudagurinn að jafnaði talsvert lengri en á öðrum Norðurlöndum. Samt afkasta Íslendingar ekki jafn miklu og nágrannaþjóðirnar auk þess sem laun hér á landi eru talsvert lægri. Langir vinnudagar skila því hvorki hærri heildartekjum launafólks né betri framleiðni. Þvert á móti verður frítími minni og afköst lakari sem hefur í för með sér óhagræði jafnt fyrir launafólk sem atvinnurekendur. Talsvert hefur verið rætt um að æskilegt sé að breyta þessu mynstri en lítið framkvæmt til að svo geti orðið. Þó eru jákvæð teikn á lofti um að eitthvað kunni að gerast í þessum málum á næstunni.

Styttum vinnutíma

Víða hefur það sýnt sig að með því að stytta vinnutíma án þess að skerða laun hefur tekist að ná fram aukinni framleiðni. Vinnutilhögun fólks verður skipulagðari og nýting vinnutímans batnar. Vissulega er þetta breytilegt eftir atvinnugreinum og eðli starfa en rannsóknir leiða í ljós að þetta á sérstaklega við um vinnustaði þar sem fólk vinnur langa vinnudaga, líkt og mjög algengt er víða á Íslandi.

BSRB hefur um árabil þrýst á stjórnvöld að skipa starfshóp til að kanna mögulega hagkvæmni þess að stytta vinnutíma. Til stóð að vinnuhópur velferðaráðuneytisins um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs sem skipaður var á síðasta kjörtímabili myndi skoða áhrif styttingu vinnutíma. Sá hópur taldi verkefnið aftur á móti of viðamikið samhliða öðrum verkefnum hópsins og því stóð til að stofna sérstakan starfshóp til að fjalla aðeins um þetta viðfangsefni. Nýr félagsmálaráðherra hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að setja þann hóp á laggirnar enn sem komið er.

Innan sama ráðuneytis er þó unnið að gerð sérstakrar fjölskyldustefnu sem á m.a. að „tryggja jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs.“ Það er skoðun BSRB að stytting vinnutíma eigi að vera hluti af opinberri fjölskyldu- og velferðarstefnu stjórnvalda. Hóflegri vinnutími yrði mikilvægt framlag til fjölskyldustefnunnar og sýnt hefur verið fram á að jafnrétti á heimilum er ein meginforsenda þess að jafnrétti náist á vinnumarkaði. Stytting vinnutíma gæti því aukið lífsgæði fólks og stuðlað að frekara jafnrétti. Því er miður að ekki eigi að skoða sérstaklega innan ráðuneytisins hvernig hægt sé að stytta vinnutíma og hvaða áhrif það myndi hafa.

Þurfum að draga úr álagi

Reykjavíkurborg tók af skarið í maí og samþykkti að skipa starfshóp sem á að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudagsins án þess að skerða laun. Það eru fyrstu beinu aðgerðirnar sem lúta að þessum málum þótt nágrannalönd okkar hafi tekið stærri skref í þessa átt á undanförnum árum. Forvitnilegt verður að sjá hvernig verkefninu mun miða áfram og vonandi er þetta aðeins fyrsta skrefið í áttina að hóflegri vinnutíma.

Þá hafa Samtök iðnaðarins viðrað hugmyndir um að stytta vinnudaginn í sjö klukkustundir og talið þær raunhæfar í framkvæmd án mikilla áhrifa á kostnað eða afköst. Vilji til að láta reyna á styttingu vinnutíma er því víða fyrir hendi og ljóst er að margt launafólk myndi taka slíkum breytingum fegins hendi.

Allar mælingar benda til þess að mjög víða sé vinnuálag launafólks hér á landi of mikið. Atvinnuþátttaka er mjög góð og lengd vinnudaga er með því mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja. Í kjarakönnun BSRB árið 2013, sem tæplega 9 þúsund manns tóku þátt í, kom glögglega fram að talsverður fjöldi vill vinna minna en hann gerir í dag. Talsverður fjöldi svarenda tók líka fram að vinnan hefði mikil neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum en fyrir nokkrum árum og talsvert meira álag. Þetta hefur haft þau áhrif að veikindadagar verða fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafa aukist og of margir sjá sér ekki fært að snúa aftur til vinnu.

Rannsóknir hafa líka sýnt fram á samhengi milli langs vinnudags, skorts á hvíld og tíðni vinnuslysa þannig að hvatarnir til að stytta vinnutímann eru margir. Hóflegri vinnutími gæti dregið úr því sem talið var upp hér á undan og um leið dregið úr kostnaði sem af þessu hlýst. Styttri vinnutími getur því haft jákvæð áhrif á lífsgæði fólks, hagsæld, framleiðni og jöfnuð. Víða hefur tekist að stytta vinnudaginn án þess að það hafi teljandi áhrif á afköst eða launakostnað. Það er því fátt því til fyrirstöðu að athuga hvort slíkar aðgerðir séu ekki einnig framkvæmanlegar hér á landi.

Getur verið allra hagur

Það er líka umhugsunarvert hvort ekki sé rétt að kanna alla möguleika til að stytta vinnudaginn þar sem rætt er um að hækka lífeyristökualdur og þar með lengja starfsævina. Við vinnum nóg nú þegar og það bitnar oft á samverustundum með fjölskyldu. Ein mesta lífsgæðabót sem vinnandi fólki er hægt að færa er þess vegna minna álag og hóflegri vinnutími. Og ef það er útfært með skynsömum hætti getur ábatinn verið allra.

Ef hægt er að ná fram framleiðniaukningu í sama hlutfalli og styttingu? vinnutímans er hægt að halda launakostnaði óbreyttum þótt tímakaup hækki. Víða hefur þetta tekist og jafnvel eru dæmi um að hlutfallsleg framleiðni hafi aukist umfram styttingu vinnutímans. Með því tekst að auka frítíma fólks og auka hagkvæmni. Fólk verður ánægðara í störfum sínum og skilar betra starfi. Kostir styttri vinnutíma eru þannig í mörgum tilfellum ekki aðeins miklar félagslegar umbætur heldur einnig efnahagslegar.

 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?