Styttri vinnuvika fyrsta skrefið inn í framtíðina

Eftir tvö ár með styttri vinnuviku hefur Hugsmiðjan sett niðurstöður sínar fram á myndrænan hátt.

Hugsmiðjan kallar styttingu vinnuvikunnar um heilar tíu klukkustundir, úr 40 stundum í 30, fyrsta skrefið inn í framtíðina. Það er erfitt að vera ósammála því þegar greining á því hverju þetta hefur skilað fyrirtækinu liggja fyrir.

Fyrir rúmlega tveimur árum fóru stjórnendur og starfsmenn Hugsmiðjunnar, þekkingarfyrirtæki sem sinnir hugbúnaðargerð, markaðssetningu, hugmyndavinnu og fleiru, að velta fyrir sér hvernig mætti endurhugsa starfsemina, draga úr streitu og álagstengdum veikindum. Lausnin var að gefa starfsmönnum kost á að sinna því sem raunverulega gefur lífinu tilgang; fjölskyldu, áhugamálum, hreyfingu og andlegri næringu hverskonar.

Síðastliðin tvö ár hefur starfsfólk Hugsmiðjunnar unnið sex klukkustundir á dag, en ekki átta eins og flest vinnandi fólk, án launaskerðingar.

„Ég hafði miklar efasemdir um að við gætum sinnt viðskiptavinum okkar jafn vel og áður ef starfsfólkið ynni færri stundir á hverjum degi,“ segir Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, í grein á vef fyrirtækisins. „En það kom mér ánægjulega á óvart hvað framleiðnin jókst. Ótrúlegt en satt þá erum við að veita enn betri þjónustu en áður.

Eftir að hafa unnið 30 stunda vinnuviku í tvö ár eru áhrifin augljós og afar jákvæð. Andleg og líkamleg heilsa starfsmanna hefur batnað mikið og veikindadögum fækkað um 44%. Einbeitingin er betri og afköst á vinnutíma sömuleiðis.

Þvert á svartsýnar spár um minni framleiðni hefur hún aukist um 23 prósent, svo mikið að starfsfólkið afkastar jafn miklu á sex tímum og það gerði áður á átta tímum. Þrátt fyrir að starfsmenn vinni fjórðungi færri vinnustundir hafa tekjur fyrirtækisins aukist á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ákveðið var að stíga þetta stóra skref.

Þarf hugrekki og framsýni

„Draumurinn um sífellt styttri vinnuviku og fjölskylduvænni vinnumenningu hefur verið leiðarljós verkalýðshreyfinga og lífsspekinga frá upphafi iðnbyltingarinnar. Með síhraðari tækniþróun og sjálfvirknivæðingu á 21. öldinni verður þessi hugsjón æ raunhæfari. Það þarf hins vegar hugrekki og framsýni til að gera drauminn að veruleika. Með sex tíma vinnudeginum lítur Hugsmiðjan fram á veginn og stígur fyrsta skrefið inn í framtíðina,“ segir í grein á vef Hugsmiðjunnar.

Það er ástæða fyrir alla sem hafa áhuga á þessum málaflokki að skoða vef Hugsmiðjunnar þar sem niðurstöðurnar eru settar fram á grafískan hátt.

Auglýsing fyrir málþing um styttingu vinnuviku


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?