Styttum vinnuvikuna í 36 stundir

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Ný rannsókn Hagstofu Íslands staðfestir það sem fyrri rannsóknir sýna, að karlar vinni lengri vinnuviku en konur og rúmlega tvöfalt fleiri konur en karlar vinna hlutastörf. Þrátt fyrir að þetta hafi verið staðan síðustu áratugi hefur lítið sem ekkert verið gert til að bregðast við þessum mun.

Á þeirri tæplega hálfu öld sem liðin er frá því að fjörutíu stunda vinnuvika var lögfest hefur samfélagið tekið miklum breytingum. Ein af þeim breytingum er verulega aukin atvinnuþátttaka kvenna.

Við þekkjum vel fjölmörg neikvæð áhrif af löngum vinnudögum. Við vitum að hætt er við streitu, álagi og veikindum þegar fólk sem vinnur langan vinnudag reynir að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Það hefur augljós áhrif að konur séu frekar í hlutastörfum en karlar. Tekjur þeirra eru lægri en tekjur karla og ellilífeyririnn sömuleiðis. En það er ástæða fyrir því að konur leita frekar í hlutastörf. Karlar sem vinna hlutastörf gera það einkum vegna veikinda. Konur sækja í hlutastörf til að hafa sveigjanleika til að sinna heimili og uppeldi barna, en þar axla konur enn þann dag í dag ríkari ábyrgð en karlar.

Þá er mikill meirihluti þeirra sem starfa við umönnun og í heilbrigðisgeiranum konur. Þær kjósa almennt að minnka vinnutímann til að draga úr álagi og jafna sig milli vakta. Þannig taka þær á sig ábyrgðina af því að tryggja andlegt og líkamlegt heilbrigði og koma í veg fyrir fjarveru vegna neikvæðra áhrifa vinnutímans.

Viðhorf Íslendinga til vinnu er að taka breytingum. Yngsta kynslóðin á vinnumarkaði, karlar jafnt sem konur, leggur ríka áherslu á sveigjanlegan vinnutíma og velur sér störf eftir því. Eftir stendur spurningin um hvernig við sem samfélag ætlum að mæta þessum breyttu áherslum.

BSRB hefur barist fyrir því að vinnuvikan verði stytt úr fjörutíu stundum í 36. Bandalagið vinnur nú að tilraunaverkefnum ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu til að kanna áhrif slíkra breytinga. Með því að fækka vinnustundunum má taka mikilvægt skref í að breyta vinnumenningunni og auka jafnrétti á vinnumarkaði.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?