Þak á greiðslur lækkað verulega

Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem setja mun þak á greiðslur sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Samkomulag náðist á þinginu um að auka verulega fjárframlög ríkisins til þess að þakið verði 50 þúsund krónur á ári en ekki 95 þúsund eins og frumvarpið gerði ráð fyrir.

BSRB hefur frá því frumvarpið kom fram lýst sig fylgjandi því að setja þak á greiðslur fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins. Stefna bandalagsins er sú að slíkur kostnaður verði alfarið greiddur úr sameiginlegum sjóðum og er þak á hámarksgreiðslur stórt skref í rétta átt.

Aldraðir og öryrkjar greiði meira

Bandalagið varaði þó jafnframt við því að með því að setja ekki aukið fjármagn inn í kerfið til að lækka hámarksgreiðslur þeirra sem nota kerfið mest verði óhjákvæmilega að hækka gjaldtöku af þeim sem noti kerfið minna. Eins og fram kom í máli Gunnars Alexanders Ólafssonar heilsuhagfræðings á fundi velferðarnefndar BSRB nýverið mun meirihluti aldraðra og lífeyrisþega greiða umtalsvert hærri upphæðir fyrir þjónustuna.

Samkvæmt frétt á vef Velferðarráðuneytisins var frumvarpið samþykkt með lítilsháttar breytingum. Því taka lögin að óbreyttu gildi 1. febrúar 2017 og verður þakið þá 95.200 krónur á ári, eða 63.500 krónur á ári fyrir aldraða og öryrkja.

Í fréttinni kemur þó jafnframt fram að velferðarnefnd Alþingis hafi metið það svo að þörf sé á meira fjármagni inn í kerfið og að þakið yrði lægra. Niðurstaðan var sú að samkomulag var gert um að þakið yrði lækkað niður í 50 þúsund krónur á ári í vinnu við fjárlög í haust. Ekki hefur verið metið hver kostnaðurinn við það muni verða, en talið að hann verði á bilinu einn til tveir milljarðar króna.

Fögnum en spyrjum að leikslokum

BSRB telur fulla ástæðu til að fagna því að stjórnvöld hafi samþykkt að auka framlög til að lækka þakið í 50 þúsund krónur. Bandalagið bendir þó á að eftir er að útfæra hvað þetta þýðir og reikna út hvernig áhrif þessar breytingar hafa á mismunandi hópa, til dæmis eldri borgara og lífeyrisþega.

Bandalagið mun fylgjast vel með framvindu þessa máls í fjárlagagerðinni og hvetja til þess að þak á greiðslur í heilbrigðiskerfinu verði sem lægst.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?