Þarf að ganga lengra í stuðningi við heimilin

Álagsgreiðslur til þeirra sem standa í framlínunni í faraldrinum ættu að ná til fleiri hópa, til að mynda lögreglumanna, að mati BSRB.

Ganga verður mun lengra í stuðningi við heimili sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna nauðsynlegra sóttvarnaraðgerða en gert er í frumvörpum stjórnvalda með viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum að mati BSRB.

Í umsögn bandalagsins um frumvarp til fjáraukalaga og frumvarp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins er bent á mikið vanti upp á að verið sé að vernda viðkvæmustu þjóðfélagshópana á þessum óvissutímum. Mikilvægt sé að hafa í huga að fólk í tekjulægstu hópunum hafi oft minni sveigjanleika varðandi vinnuaðstæður og sé því hættara við að verða fyrir tekjufalli ef undirliggjandi sjúkdómar eða rof á skólahaldi gera þeim ekki kleift að mæta til vinnu.

„Það er algjörlega óásættanlegt að þessir hópar standi óbættir hjá garði vegna tekjufalls og nauðsynlegt er að bregðast vel og hratt við. Tímabundið tekjufall getur haft langvarandi fjárhagsleg áhrif á heimilin sem um ræðir,“ segir meðal annars í umsögn BSRB. Þar er einnig kallað eftir því að bótafjárhæðir almanna- og atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar.

BSRB fagnar álagsgreiðslum til heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni gegn heimsfaraldrinum, en kallar eftir því að slíkar álagsgreiðslur nái til stærri hóps. Mun fleiri séu í framlínunni og verði fyrir auknu álagi vegna faraldursins, til dæmis fólk í umönnunarstörfum og ræstingum og viðbragðsaðilar á borð við lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.

„BSRB telur eðlilegt að fjárveiting til slíkra álagsgreiðslna verði aukin verulega og skilgreining á skilyrðum til greiðslnanna verði unnin í samráði við stéttarfélög opinberra starfsmanna til að tryggja sanngirni í útdeilingu greiðslnanna,“ segir í umsögninni.

Þarf nýja nálgun á opinbera þjónustu

Þar segir jafnframt að það valdi áhyggjum að ekki sé verið að verja frekari fjármunum í að styrkja heilbrigðisþjónustu, löggæslu og aðra mikilvæga opinbera þjónustu, enda hafi nú sem aldrei fyrr sannast hversu mikilvæg sú þjónusta sé.

„Flestar af þeim opinberu stofnunum sem nú eru undir gríðarlegu álagi hafa búið við fjársvelti um árabil sem hefur leitt til langvarandi álags á starfsfólk,“ segir í umsögn BSRB. „Fyrir liggur að viðbótarkostnaður Landspítala hleypur á milljörðum króna en fleiri stofnanir munu þurfa á viðbótarfjárveitingum að halda og mikilvægt er að þeim verði mætt að fullu og tímanlega. Það þarf nýja nálgun á opinbera þjónustu svo að þjónustan geti staðið undir auknum kröfum samhliða faraldrinum og til framtíðar.“

Umsögn BSRB má lesa í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?