Þing BSRB: Viljayfirlýsing um styttingu vinnuviku

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti Elínu Björgu Jónsdóttur formanni BSRB í morgun viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma.

Ráðherra hélt ræðu við setningu 44. þings BSRB en við lok hennar tilkynnti hann að í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB í október 2015 hafi verið ræddir mögulegar leiðir til að stuðla að styttingu vinnutíma án launaskerðingar. Í framhaldi af viðræðum um gerð kjarasamninga lýsi ríkisstjórn Íslands sig reiðubúna að beita sér fyrir því að komið verði á fót tilraunaverkefni þar sem vinnutími verði styttur án launaskerðingar.

Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verði skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal þar sem unnin er vaktavinna.

Af þessu tilefni verði stofnaður starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneyta og BSRB og hugsanlega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópnum verður falið að skilgreina nánar markmið og aðferðir sem verði notaðar við útfærslu verkefnisins og hvernig skuli meta áhrif styttingu vinnutíma á heilsu og vellíðan starfsfólks og starfsanda á vinnustöðunum og þá þjónustu sem viðkomandi vinnustaðir veita með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið verði í samræmi við gildistíma framangreindra kjarasamninga. Starfshópur mun skila af sér skýrslu um árangur tilraunaverkefnisins a.m.k. sex mánuðum áður en kjarasamningar renna út.

BSRB fagnar þessum áfanga í tengslum við kröfu um styttingu vinnuvikunnar. Bandalagið gerði fyrstu kröfu þar um í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB 2004 en Reykjavíkurborg setti á fót sambærilegt tilraunaverkefni árið 2014. Nú hefur ríkið bæst í þann hóp.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?