Þokast hægt áfram í kjaraviðræðum

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl.

Kjaraviðræður BSRB við viðsemjendur hafa haldið áfram undanfarið. Viðræður hafa heldur þokast í rétta átt þó hægt hafi gengið. Enn á eftir að leysa úr stórum ágreiningsmálum á borð við styttingu vinnuvikunnar og jöfnun launa milli markaða.

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl og viðræður við viðsemjendur staðið yfir síðan. BSRB fer með samningsumboð í ákveðnum málaflokkum en aðildarfélög bandalagsins semja hvert fyrir sig um laun og ýmis sérmál. Viðsemjendur eru þrír; ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

Í sumar náðist samkomulag um endurnýjaða viðræðuáætlun. Þar kom fram að stefnt væri að því að ná kjarasamningum fyrir 15. september, sem ljóst er að mun ekki nást.

Stærsta áherslumál BSRB í kjaraviðræðunum er stytting vinnuvikunar. BSRB vill stytta vinnuvikuna í 35 stundir og enn meira hjá vaktavinnuhópum. Þær áherslur eru í samræmi við afar jákvæðar niðurstöður úr tilraunaverkefnum sem bandalagið stóð að ásamt Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar.

Stofnaður hefur verið sérstakur undirhópur í kjaraviðræðunum við ríkið sem hefur fjallað um mögulegar útfærslur á styttingu vinnuvikunnar. Áformað er að hópurinn skili niðurstöðu fljótlega og í kjölfarið vonast samninganefnd BSRB eftir því að hægt verði að ná saman um þetta mikilvæga hagsmunamál félagsmanna í aðildarfélögum BSRB.

Loforð um jöfnun launa milli markaða

Orlofsmál hafa einnig verið til umræðu í kjarasamningsviðræðunum. Þann 1. júní síðastliðinn tók gildi bann við mismunun á grundvelli aldurs. Orlofsávinnsla hefur verið tengd lífaldri hjá opinberum starfsmönnum og því þarf að breyta í þessum kjarasamningum.

Þá hefur BSRB einnig lagt þunga áherslu á að samið verði um jöfnun launa milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna, enda skýrt kveðið á um jöfnun launa milli markaða í samkomulagi sem gert var í tengslum við breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna árið 2016. Í samkomulaginu skuldbundu ríki og sveitarfélög sig til að leiðrétta launamuninn innan tíu ára.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?