Þolinmæðin þrotin eftir níu mánaða kjarasamningsviðræður

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Það hefðu fáir spáð því í byrjun þessa árs að opinberir starfsmenn yrðu enn án kjarasamnings í lok árs, níu mánuðum eftir að samningar runnu út. Þetta er engu að síður raunveruleikinn fyrir þorra 22 þúsund félaga aðildarfélaga BSRB.

Það eru gríðarleg vonbrigði að standa í þessum sporum um áramót og augljóst að þolinmæðin hjá félagsmönnum og forystu BSRB er löngu þrotin. Viðsemjendur geta ekki lengur sýnt okkar félagsmönnum þá fullkomnu vanvirðingu að gera ekki við þá kjarasamning.

Opinberir starfsmenn hafa í gegnum tíðina þurft að standa í harðvítugri baráttu til að ná fram mikilvægum kjarabótum sem þykja sjálfsögð réttindi launafólks í dag. Þar hefur samstaða okkar félagsmanna verið öflugasta vopnið í okkar vopnabúri.

Markmið BSRB í kjarasamningsgerðinni eru skýr og við munum ekki ganga frá kjarasamningum fyrr en þau hafa náðst. Við höfum lagt áherslu á styttingu vinnuvikunnar úr 40 stundum í 35 og meira hjá vaktavinnufólki. Við krefjumst jöfnunar launa milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, viljum áframhaldandi launaþróunartryggingu og bætt starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Launaliðurinn og ýmis sérmál eru á borði hvers aðildarfélags fyrir sig en þar er áherslan á að hækka lægstu launin mest.

Þungur róður í viðræðunum

Það er ekkert launungamál að það hefur verið afar þungur róður að ná fram skilningi hjá okkar viðsemjendum um mikilvægi styttingar vinnuvikunnar. Það hefur satt að segja komið verulega á óvart, enda hafa tilraunaverkefni sem BSRB hefur unnið að ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu undanfarin ár sýnt fram á kosti þess að stytta vinnuvikuna án launaskerðingar bæði fyrir launafólk og atvinnurekendur. Allir vinna, en samt þráast viðsemjendur okkar við og draga viðræður von úr viti.

Það er fullkomlega óskiljanlegt að ekki hafi tekist að semja um styttingu vinnuvikunnar, sér í lagi þegar slíkir samningar hafa þegar verið gerðir á ákveðnum vinnustöðum á almenna vinnumarkaðinum, til dæmis í stóriðjunni. Með niðurstöður tilraunaverkefnanna sem leiðarljós hefði átt að vera hægt að semja um styttinguna á stuttum tíma, ef samningsvilji hefði verið fyrir hendi hjá viðsemjendum okkar.

Munum beita öllum okkar vopnum

Á nýju ári þurfum við á samstöðu opinberra starfsmanna að halda á ný. Það er fullkomin samstaða um það innan BSRB að ekki verði gengið til kjarasamninga öðruvísi en svo að okkar félagsmenn geti eftir þá lifað af á laununum sínum og að vinnuvikan verði stytt. Það verður ekki skrifað undir nýjan kjarasamning öðruvísi en að tekin verði markviss skref í átt að jöfnun launa milli markaða, að samið verði um bætt starfsumhverfi og launaþróunartryggingu.

Á nýju ári mun BSRB og okkar öflugu aðildarfélög beita öllum þeim vopnum sem við höfum til að tryggja þessi miklu hagsmunamál. Verði ekki breytingar á viðhorfi viðsemjenda okkar strax í upphafi nýs árs má búast við að við förum að huga að aðgerðum til að leggja áherslu á okkar kröfur.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?