Þörfin fyrir nýtt leiguhúsnæði eykst mikið

Könnun BSRB sýnir að mikill fjöldi fólks vill eiga þess kost að leigja húsnæði í stað þess að eiga. Hér á eftir fer grein sem birtist í síðasta hefti BSRB-tíðinda sem kom út síðasta vor.

Höfuðáhersla í umræðunni undanfarið hefur verið lögð á málefni þeirra sem eiga sitt húsnæði á meðan málefni leigjenda hafa setið á hakanum. BSRB vill fyrst og fremst auka á fjölbreytni í húsnæðismálum enda sýna rannsóknir að þörfin fyrir leiguhúsnæði er mikil og á eftir að aukast enn frekar á komandi árum.

Umræða um stöðu heimilanna hefur verið fyrirferðamikil síðustu árin og sérstaklega nú síðustu vikur í aðdraganda kosninga. Mikill áhersla hefur verið lögð á niðurfellingu og leiðréttingu skulda vegna húsnæðislána. Umræður um breytt húsnæðiskerfi hafa einnig ratað inn í umræðuna. Allt þetta er góðra gjalda vert og BSRB styður heilshugar aðgerðir sem miða að því að leiðrétta húsnæðisskuldir þeirra sem verst urðu úti í kjölfar efnahagshrunsins. Hins vegar finnst bandalaginu að málefni þeirra sem leigja húsnæði í stað þess að eiga hafa orðið útundan og hefur BSRB því lagt nokkra áherslu á að koma sjónarmiðum þess hóps á framfæri.

Sífellt fleiri vilja leigja

Samkvæmt svörum í síðustu kjara og viðhorfskönnun BSRB kom skýrt fram að þörfin fyrir leiguhúsnæði er mjög mikil og að framboðið er ekki að anna eftirspurn. Samkvæmt svörum könnunarinnar er mikill fjöldi fólks sem getur vel hugsað sér að færa sig úr eigin húsnæði yfir á leigumarkaðinn. Af svarendum í könnuninni bjuggu aðeins um 11% í leiguhúsnæði en samt sem áður sögðust 27% vel geta hugsað sér að vera leigumarkaðnum. Það sem vakti mesta athygli var sú staðreynd að af þeim sem í dag búa í eigin húsnæði sögðust 22% þeirra geta hugsað sér að leigja næst þegar skipt yrði um húsnæði ef búsetuöryggi þeirra í leiguhúsnæðinu væri tryggt.

Staðan í dag er þannig að mikill skortur er á leiguhúsnæði hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Leigan er mjög dýr, leigumarkaðurinn er mjög óskipulagður og fæstum gefst kostur á að leigja húsnæði nema til skemmri tíma. Könnun BSRB sýnir svo glögglega að til viðbótar við þá sem þegar eru á leigumarkaði gætu margir sem í dag eiga sitt húsnæði hugsað sér að leigja í framtíðinni. Það segir sig því sjálft að þörfin fyrir leiguhúsnæði í dag er mikill og á enn eftir að aukast á komandi árum.

Öflugt leigukerfi óháð félagslegum úrræðum

Það hefur verið stefna BSRB um árabil að efla leigumarkaðinn hér á landi og búa þannig um að það sé raunverulegur og varanlegur möguleiki að búa í leiguhúsnæði. Það er jafnframt skoðun bandalagsins að leigukerfið eigi að vera óháð félagslega húsnæðiskerfinu því þörfin fyrir leiguhúsnæði nær langt út fyrir þann hóp. Kannanir BSRB sýna að fólk vill hafa fjölbreyttara val þegar kemur að vali á búsetuformi, hvort sem það þarf á félagslegum úrræðum að halda eða ekki.

Fram til þessa hefur höfuðáherslan verið lögð á séreignarstefnuna sem hefur verið ríkjandi í húsnæðismálum á Íslandi og ef marka má áherslur flestra stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar virðist það lítið vera að breytast. Öll áhersla hefur verið á að rétta hlut þeirra sem búa í eigin húsnæði sem kemur óneitanlega niður á þeim sem kjósa að vera á leigumarkaði. Þar fyrir utan eru fjölmargir sem hreinlega hafa ekki efni á að fjárfesta í húsnæði og neyðast til að vera á leigumarkaði. Lítill vilji virðist vera hjá stjórnmálaflokkunum til að gera nokkuð fyrir þann hóp og vill BSRB bæta úr því.

Jafna verður stuðning

Eitt af því sem að BSRB barðist fyrir á síðustu árum var að auka jafnræði á milli búsetuforma. Fulltrúi bandalagsins tók m.a. þátt í vinnuhópi sem lagði drög að nýju húsnæðisbótakerfi. Þar er gert ráð fyrir að leigu- og vaxtabætur verði lagðar niður en í stað þeirra teknar upp svokallaðar húsnæðisbætur sem yrðu þær sömu óháð því hvort fólk leigi eða eigi sitt húsnæði. Slík breyting myndi fela í sér aukin stuðning við leigjendur en kerfið hefur ekki enn komist til framkvæmda. Slíkt kerfi myndi jafna fjárhagslegan stuðning hins opinbera milli þeirra sem leigja eða eiga sitt húsnæði. Ein afleiðing slíks kerfis gæti einnig verið að enn fleiri gætu hugsað sér að færa sig úr eigin húsnæði í leiguhúsnæði. BSRB tekur það mikið réttlætismál að slíku kerfi verði komið á hið fyrsta til að jafna stuðning við þessa tvo hópa.

Frekari rannsókna þörf

Rannsóknir á leigumarkaði á Íslandi hafa líka verið af skornum skammti og raunþörf fyrir leiguhúsnæði hér hefur ekki verið skoðuð almennilega, þótt það hafi aðeins verið að aukast allra síðustu misseri. Þar verða ríki og sveitarfélög að koma betur að málum. BSRB hefur líka ítrekað lýst þeim skoðunum sínum að hið opinbera verði að koma frekar að uppbyggingu á nýju og hentugu leiguhúsnæði. Reykjavíkurborg hefur aðeins verið að taka við sér í þessum efnum en þær takmörkuðu upplýsingar sem til eru um leigumarkaðinn á Íslandi og þörfina fyrir leiguhúsnæði benda allar til þess að hér þurfi að auka framboðið á leiguhúsnæði umtalsvert.

Þörfin fyrir aukið leiguhúsnæði, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni, er greinilega til staðar og mun fara vaxandi. Og sérstaklega skortir langtímaleiguhúsnæði. BSRB mun halda áfram að halda þeim skoðunum sínum á lofti að hér þurfi stórátak í eflingu leigumarkaðar. Um leið og BSRB styður af heilum hug aðgerðir sem miða að því að leiðrétta húsnæðislán þeirra sem verst urðu verst úti í efnahagshruninu og gera ungu fólki kleift að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði  verður að huga að þeim sem standa utan við eignamarkaðinn. Margir þeirra sem eru á leigumarkaði eru þeir sem hafa hvað minnst á milli handanna og á meðan stuðningur opinberra aðila við þá er ekki hinn sami og til annarra er um mikið óréttlæti að ræða.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?