Þriðja þing ITUC í Berlín

Þriðja alþjóðaþing ITUC (International Trade Union Confederation) var sett í gær í Berlín og mun standa fram á föstudag. Þar eru fulltrúar frá meira en 1000 heildarsamtökum launafólks um allan heim og BSRB þar á meðal.

Í ræðu sinni fyrr í dag sagði Sharan Burrows, aðalritari ITUC, frá niðurstöðum nýrrar athugunar ITUC, eins konar vísitölu samtakana um réttindi launafólks. Þar er löndum heimsins skipt upp í sex flokka eftir réttindum launafólks og stöðu verkalýðshreyfinga innan landanna. Ísland er þar í efsta flokknum ásamt Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi, Úrúgvæ, Togo, S-Afríku, Slóvakíu, Svartfjallalandi, Litháen, Frakklandi, Eistlandi og Barbados.

„Lönd eins og Danmörk og Úrúgvæ eru leiðandi þegar kemur að öflugri vinnulöggjöf á meðan, og það kemur ef till vill einhverjum á óvart, Grikkland, Bandaríkin og Hong Kong standa þeim langt að baki,“ sagði Saran Burrows í ræðu sinni. Heildarskýrslu um stöðu launafólks í heiminum má nálgast hér.

Ræðumönnum á þingi ITUC hefur fram til þessa verið mjög tíðrætt um ástand vinnandi fólks í Katar þar sem áformað er að heimsmeistaramótið í knattspyrnu fari fram árið 2022. ITUC hefur farið fram með góðu fordæmi til að benda á hið skelfilega ástand sem vinnandi fólk, og þá sérstaklega farandverkamenn, búa við í Katar. Saran Burrows minntist á þetta í ræði sinni og hvatti raunar til þess að endurskoðað yrði hvar heimsmeistaramótið í knattspyrnu færi fram árið 2022.

Þá minntist hún sérstaklega þeirra rúmlega 200 námuverkamanna sem fórust þar fyrir skemmstu og fordæmdi hroka og yfirgang ráðamanna Tyrklands í kjölfar slyssins. Hún vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína og lyfti vinnuhjálmi eins námuverkamannanna sem lifði slysið af á loft sem tákn um samstöðu verkalýðshreyfingarinnar með öllum þeim sem búa við bágar vinnuaðstæður og veika vinnulöggjöf.

„Samstaða okkar er sterkari öðrum öflum og saman getum við breytt aðstæðum til hins betra,“ sagði aðalritari ITUC.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?