Til hamingju með baráttudag verkalýðsins!

Fallegt veður einkenndi 1. maí í fyrra, þegar þessar myndir voru teknar.

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, verður með óhefðbundnu sniði þetta árið. Á tímum kórónaveirunnar og samkomubanns getur launafólk ekki farið í hefðbundnar kröfugöngur eða safnast saman á baráttufundum. Í stað þess verður boðið upp á baráttu- og skemmtidagskrá í Ríkissjónvarpinu, enda sjaldan verið meiri þörf á því að lyfta sér upp en einmitt nú.

Þetta verður í fyrsta skipti síðan 1923 sem íslenskt launafólk safnast ekki saman til að leggja áherslu á kröfur sínar. Þess í stað munu heildarsamtök launafólks í landinu, BSRB, ASÍ, BHM og KÍ, standa fyrir sérstakri skemmti- og baráttusamkomu í Hörpu sem sjónvarpað verður á RÚV í kvöld, föstudaginn 1. maí klukkan 19:40.

Á þessum sögulega viðburði munu landsþekktir tónlistarmenn og skemmtikraftar koma saman auk þess sem flutt verða hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Þar sem ekki verður farið í kröfugöngu eða á baráttufund verðum við að ylja okkur við minningarnar af 1. maí í fyrra, þegar viðraði vel til útisamkoma víða um land, rétt eins og í dag. Hægt er að fletta í gegnum myndirnar hér til hliðar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?