Tímaspursmál hvenær við styttum vinnuvikuna

Fjallað var um styttingu vinnuvikunnar í Kveik í gær.

Það virtist samdóma álit þeirra sem rætt var við í Kveik, fréttaskýringarþætti Ríkissjónvarpsins í gær að það sé aðeins tímaspursmál hvenær vinnuvikan verði stytt úr þeim 40 stundum sem hún hefur verið í síðustu nærri hálfa öld.

Stytting vinnuvikunnar hefur verið ein af meginkröfum félagsmanna BSRB síðustu árin, sér í lagi í kjölfar hrunsins. „Þá fundum við að forgangsröðin var önnur hjá fólki, það vildi eiga meiri gæðatíma með sér og sínum,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, í viðtali við Kveik.

Gríðarmiklar breytingar hafa orðið á samfélaginu öllu, þar með talið á vinnumarkaðinum, frá því 40 stunda vinnuvika var lögfest árið 1971. Katrín Ólafsdóttir vinnumarkaðshagfræðingur benti á það í þættinum að langur vinnudagur geti komið niður á því hversu lengi fólk endist í starfi. Ef hægt væri að koma í veg fyrir örorku og veikindi með styttri vinnudegi gæti það vegið upp á móti mögulegum kostnaði við styttinguna.

Tilraunaverkefni sem BSRB og Reykjavíkurborg hafa unnið að frá árinu 2015 sýnir að hægt er að stytta vinnutíma án þess að það bitni á afköstum. Það rímar við það sem Katrín benti á í Kveik. Landsframleiðsla á klukkustund er fremur lág á Íslandi þrátt fyrir að landsframleiðsla á mann sé há. Þannig virðast Íslendingar hífa upp lífskjör sín með því að vinna lengur í stað þess að vinna skemur og betur.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var einnig jákvæður gagnvart styttingu vinnuvikunnar. „Afstaða Samtaka atvinnulífsins er bara mjög jákvæð og við erum mjög opin fyrir því að skoða þetta í auknum mæli á næstu misserum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verði mjög snar þáttur í kjarasamningsgerð á næstu árum,“ sagði hann í viðtali við Kveik.

Stjórnendur geta byrjað strax

Stjórnendur fyrirtækja og stofnanna sem vilja hugsa út fyrir kassann þurfa ekki að bíða eftir því að samið verði um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum. Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar sýnir að atvinnurekendur og starfsmenn hafa gagnkvæman ávinning af styttingu vinnuvikunnar. Fyrirtæki eins og Hugsmiðjan hafa þegar tekið skrefið og stytt vinnutíman starfsmanna í 30 stundir á viku. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar hér.

Smelltu hér til að horfa á umfjöllun Kveiks.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?